Segir hækkanirnar „algjört rugl“

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ákvörðun kjararáðs um að hækka launakjör ýmissa helstu ráðamanna þjóðarinnar, þar á meðal laun alþingismanna um 338 þúsund krónur á mánuði, hefur mætt mikilli gagnrýni síðan hún var gerð ljós í gær.

Frétt mbl.is: Jafna laun þingmanna og dómara

„Í rauninni algjört rugl“

Meðal þeirra sem hafa tjáð sig um hækkunina er Pawel Bartoszek, nýkjörinn þingmaður Viðreisnar í Reykjavíkurkjördæmi suður, en hann segir hækkanir á þingfararkaupi of háar.

„Jú, jú, laun þingmanna þurfa að vera samkeppnishæf, þeir fjárhagslega sjálfstæðir og allt það,“ segir Pawel á Facebook-síðu sinni. Engu að síður séu peningarnir teknir af öðru fólki með ofbeldi.

„Það er ekki endilega sjálfsagt að ég, verkefnastjóri hjá alþjóðlegu stórfyrirtæki, fái hærri upphæð við hver mánaðamót við það að setjast á þing. Í rauninni er það algjört rugl.“

Óréttlátt og rangt

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, tekur einnig til máls og segir dauðaþögn ríkja í landsmálapólitíkinni um úrskurð kjararáðs.

„Það gengur ekki. Það er fráleitt að laun toppanna í samfélaginu hækki langt umfram þær línur sem sömu toppar hafa lagt varðandi kjaraþróun í landinu - í nafni stöðugleika. Þetta er óréttlátt og rangt og má ekki standa,“ segir Dagur.

Mun lækka laun sín einhliða

Skorar hann því næst á nýja ríkisstjórn og nýtt Alþingi að gera það að sínu fyrsta verki að grípa inn í.

„Það er þeirra hlutverk. Ef þetta fær að standa þá er samstarf stjórnvalda og verkalýðshreyfingar um þróun kjaramála í fullkomnu uppnámi. Þá er stöðugleiki úr sögunni og allir tapa. Það er augljóst mál.“

Þá segir hann að hann og aðrir borgarfulltrúar Reykjavíkur muni færa laun sín niður einhliða, aðhafist Alþingi ekki, en samkvæmt reglum borgarinnar er upphæð launa þeirra bundin við upphæð þingfararkaups.

Birgitta segir ákvörðunina hafa komið sér á óvart.
Birgitta segir ákvörðunina hafa komið sér á óvart. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Blaut tuska í andlit þeirra efnaminni

Birgitta Jónsdóttir, kapteinn Pírata, segist hafa gagnrýnt þá staðreynd að fólk sé skipað í ráðið á pólitískan hátt.

„Betra væri ef þetta væru fagaðilar sem hafa betri tengsl við vinnumarkaðinn,“ segir Birgitta og bætir við að sér hafi komið á óvart þessi ákvörðun um að hækka launin „svona fáránlega mikið korteri eftir kosningar. Þá er þetta eins og blaut tuska í andlit þeirra sem eiga varla til peninga til að borða“.

Að lokum segir hún nokkra vini sína hafa spurt sig hvort hún hyggist þiggja launahækkunina.

„Ég hef nú þegar hringt niður á Alþingi til að kanna hvort að ég geti afþakkað og hvernig þetta gengur fyrir sig og er að bíða eftir svörum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert