„Er þetta Björt Viðreisn?“

Birgitta Jónsdóttir mætir fyrir hönd Pírata á fund með Bjarna …
Birgitta Jónsdóttir mætir fyrir hönd Pírata á fund með Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, í Ráðherrabústaðnum í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fundi fulltrúa Pírata með Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, er nú lokið. Varði hann í tæpa eina og hálfa klukkustund.

Spurð hvort fundurinn hafi ekki verið óvenju langur, miðað við ummæli hennar fyrir fundinn um að hann væri táknrænn, segir Birgitta Jónsdóttir, kapteinn Pírata:

„Við höfum bara margt að spjalla um hvernig við getum eflt Alþingi, alveg óháð því hverjir verða kapteinar á skútunni,“ segir Birgitta og bætir við að þau hafi komið á framfæri við Bjarna ýmsum ábendingum um hvað betur megi fara við stjórn landsins.

Sérstaklega flókin staða

Hvernig tók Bjarni í ykkar hugmyndir?

„Við Bjarni höfum nú verið inni á Alþingi í sjö ár, og höfum oft rætt um að það þurfi að styrkja Alþingi gagnvart framkvæmdarvaldinu. Og nú erum við með alveg sérstaklega flókna stöðu þar sem þetta eru sjö flokkar,“ segir Birgitta í samtali við mbl.is.

„Það var mjög flókið síðast þegar það voru sex, það hafði ekki gerst áður, og nú enn flóknara,“ segir Birgitta og bendir á að taka þurfi tillit til smærri flokkanna.

Bjarni einangraður

Hvernig meturðu möguleika Bjarna á að mynda ríkisstjórn?

„Ég held að staða hans sé mjög þröng. Hann er frekar einangraður. Þetta er mjög flókin staða akkúrat núna – nú eru Viðreisn og Björt framtíð eiginlega bara... eða er þetta „Björt Viðreisn“ eða eitthvað?“

Spurð hvaða skoðun hún hafi á einmitt því, að Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, og Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, gangi saman á fund Bjarna, segir Birgitta:

„Þetta kemur mér alls ekki á óvart, einfaldlega vegna þess að Heiða Kristín [Helgadóttir], sem var framkvæmdastjóri Bjartrar framtíðar, starfar nú fyrir Viðreisn og það hefur verið töluverður samgangur þarna á milli.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert