Ásmundur Einar fer á móti Gunnari Braga

Gunnar Bragi Sveinsson.
Gunnar Bragi Sveinsson. mbl.is/Árni Sæberg

Ásmundur Einar Daðason hefur ákveðið að gefa kost á sér í fyrsta sæti á lista Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi. Hann greindi frá ákvörðun sinni á aukakjördæmisþingi flokksins sem fór fram fyrr í dag. Áður hafði Gunnar Bragi Sveinsson, oddviti flokksins í kjördæminu, greint frá því að hann gæfi aftur kost á sér í fyrsta sætið. Hann óttast ekki að fá Ásmund á móti sér.

„Það mega allir bjóða sig fram, að sjálfsögðu. Ég kvíði því ekki að vera stillt upp við hliðina á Ásmundi Einari. Fólk þekkir okkur báða ágætlega, veit fyrir hvað við stöndum og hvernig við vinnum. Ég hræðist það ekki neitt. Ég legg bara höfuðáherslu á að þetta verði heiðarleg og sanngjörn barátta.“

Gunnar Bragi sagði í samtali við Morgunblaðið í dag að markvisst væri unnið að því að koma honum úr efsta sæti flokksins í kjördæminu. Hann hefði meðal annars orðið þess áskynja fyrir nokkrum dögum að verið væri að útbúa lista og reyna að fá fólk til að mæta á kjördæmisþing og kjósa gegn honum.

Í samtali við mbl.is vill hann þó ekkert segja til um hvort hann telji að Ásmundur Einar hafi verið hvattur til að fara fram á móti honum í þeim tilgangi að reyna að bola honum frá.

„Það er ákveðinn hópur sem stendur bak við þetta. Það hefur komið fram í fréttum að ég er ekki vinsæll hjá öllum, og læt kannski illa að stjórn. Maður er því ekki alltaf vinsæll.“

Ásmundur Einar Daðason
Ásmundur Einar Daðason mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þrátt fyrir að Gunnar Bragi óttist ekki mótframboð þá hefði hann gjarnan vilja nýta tímann í annað en baráttu innan flokksins. „Ég myndi gjarnan vilja vera að nota tímann í kosningabaráttu við hina flokkana, en ekki innbyrðis, en svona er þetta bara. Hinir flokkarnir eru að starta sinni kosningabaráttu núna, en við munum ekki geta gert það fyrr en eftir 8. október.“

Aðspurður hvort hann ætli í kosningabaráttu í kjördæminu svarar hann: „Eitthvað mun maður leggja land undir fót.“

Á auka­kjör­dæmaþingi Fram­sókna­flokks­ins í Norðvest­ur­kjör­dæmi, sem fór fram fyrr í dag, var ákveðið fara skuli fram tvö­falt kjör­dæm­isþing fyr­ir val á lista flokks­ins í kjör­dæm­inu fyr­ir kom­andi alþing­is­kosn­ing­ar. Kjör­dæm­isþingið fer fram á Bif­röst þann 8. októ­ber næst­kom­andi, en þann dag verður einnig haldið auka­kjör­dæmaþing þar sem list­inn verður samþykkt­ur.

Í þinginu í dag kom einnig fram að Lilja Sigurðardóttir, varaþingmaður flokksins, býður sig fram í annað til þriðja sæti, Stefán Vagn Stefánsson í þriðja sæti og Guðveig Anna Eyglóardóttir og Lilja Rannveig Sigurðardóttir í þriðja til fjórða sæti.

Ekki náðist í Ásmund Einar við vinnslu fréttarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert