Sýnir að kjósendur vilja stefnubreytingu

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segist vera ánægð og þakklát fyrir stuðninginn sem flokkurinn fær samkvæmt nýrri könnun Félagsvísindastofnunar sem gerð var fyrir Morgunblaðið. Flokkurinn mælist sá stærsti hér á landi með 28,8%.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segist ekki ósáttur við það fylgi sem flokkurinn mælist, en að hann telji að flokkurinn geti sótt meiri stuðning fram að kosningum. Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar segir flokkinn þurfa að bæta sig verulega og Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, segir niðurstöðuna í lægri mörkunum.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna:

„Okkar markmið er að ná umtalsvert betri árangri en síðast. Við teljum að okkar málflutningur mælist vel fyrir. Hann snýst fyrst og fyrst um að við viljum sjá stefnubreytingu þegar kemur að uppbyggingu velferðarsamfélagsins, heilbrigðiskerfisins og skólanna og skýrari sýn í umhverfismálum.“

Graf/mbl.is

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins:

„Það er langt í kosningar. Ég er ekkert ósáttur við það að við hækkum og ég hef mikla trú á því að við getum sótt meiri stuðning. Ég finn að það er mjög góður andi í okkar hópi og hjá okkar stuðningsmönnum,“ segir Bjarni. „Vonandi fáum við út úr þessum kosningum sterka ríkisstjórn sem getur leitt landið áfram, við þessar góðu aðstæður sem við búum við.“

Helgi Hrafn Gunnarsson Pírati:

„Ég segi nú bara enn og aftur – mér finnst gaman þegar það fer upp og leiðinlegt þegar það fer niður. Það er allt í kortunum og mjög erfitt, ef ekki ómögulegt, að átta sig á því hvernig þróunin verður,“ segir Helgi. „Ég er alveg sannfærður um það að við eigum meira inni út frá málefnunum okkar, en það er spurning hvort okkur tekst að tjá þau nógu skýrt til kjósenda.“

Graf/mbl.is

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins:

„Það virðist vera að mælingar þessa dagana sýni þetta svona. Það hefur verið frekar neikvæð umræða um flokkinn síðustu daga og við erum búin að vera í vinnu við að búa til framboð og höfum ekki verið mikið í fjölmiðlum sjálf. Nú er kosningabaráttan að hefjast. Ég vænti þess að við náum að snúa þessu verulega við í þeirri baráttu. Það er ætlun okkar.“

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar:
„Við þurfum að bæta okkur verulega til þess að verða nógu sterkur valkostur til að tryggja hér félagshyggjustjórn,“ segir Logi Már. Spurður um markmið Samfylkingarinnar í kosningunum segir Logi Már flokkinn „fyrst og fremst ætla að tryggja einn þingmann í hverju kjördæmi (6)“. „Allt umfram það yrði gott,“ segir hann.

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins:

„Ég er bara ánægð, það er ekkert annað. Það eru allir að gera kannanir núna þannig að maður má varla vera að því að fylgjast með þessu. Ég er rosalega ánægð með allt sem sýnir að við eigum okkar fasta fylgi og það er gleðilegt. Allt annað er bara plús fyrir okkur og við bíðum og spyrjum að leikslokum. Við erum bara bjartsýn og brosandi í Flokki fólksins.“

Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar:

„Þetta er svona í lægri mörkunum. Auðvitað erum við óhress með það að vera undir mörkum í þessu,“ segir Benedikt. „Það hefur náttúrlega margt verið að gerast í pólitíkinni að undanförnu og við höfum kannski ekki verið eins áberandi með okkar mál og margir. En ég hef sterka trú á því að þegar við minnum betur á okkur aftur þá eigi þetta eftir að batna.“

Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar.
Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, stofnandi Miðflokksins:

„Mér finnst þetta frábært miðað við hvenær könnunin var tekin og að Miðflokkurinn var ekki orðinn til fyrr en í gær [í fyrradag]. Það er ánægjulegt að sjá svona mælingu.“

Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar:

„Auðvitað líst manni vel á þegar maður mælist betur. Mér finnst þetta sýna það að kjósendur eru á miklu róti, enda kannski ekki skrítið miðað við óvæntar kosningar og skrítna tíma í pólitíkinni. Það er auðvitað búinn að vera mikill hávaði varðandi innanflokksátök og klofninga í flokkum og það hefur auðvitað mikil áhrif á umræðuna.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert