Baráttan um botnsætin spennandi

Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðingur segir tvo af níu flokkum væntanlega ekki …
Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðingur segir tvo af níu flokkum væntanlega ekki koma mönnum á þing í kosningunum 28. október. mbl.is/ Kristinn Ingvarsson

Ekki er pláss fyrir níu þingflokka á Alþingi Íslendinga í núverandi mynd. Þetta sagði Eiríkur Bergmann Einarsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst, í þættinum Silfrinu á RÚV nú í morgun.

„Botnbaráttan er spennandi,“ sagði Eiríkur. Skoðanakannanir bentu til mikils fylgis Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs og Sjálfstæðisflokks „og svo eru það dvergarnir sjö“ bætti hann við og sagði ekki pláss fyrir níu flokka á þingi.

„Þetta er útsláttarkeppni sem við stöndum frammi fyrir.“

Algjör bylting hefði orðið á hefðbundna flokkakerfinu. Eiríkur kvaðst þó ekki vilja fullyrða hvaða flokkar myndu detta út eftir kosningarnar í október, en sagði mælingar sýna að Björt framtíð ætti erfitt uppdráttar og eins gæti Viðreisn líka átt erfitt.

Sitt hvað gæti líka gerst með klofningi Framsóknarflokksins, en samkvæmt skoðanakönnun sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði fyrir Morgunblaðið þá mælist fylgi Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fyrrverandi þingmanns Framsóknar, 4,6% en fylgi Framsóknarflokksins 7%. „En hvað gerist svo ef  bæði Framsókn og flokkur Sigmundar fara undir þröskuldinn?“ spurði Eiríkur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert