„Maður gerir það sem er best fyrir liðið“

Unnur Brá segist sátt við sitt sæti og ætlar að …
Unnur Brá segist sátt við sitt sæti og ætlar að berjast fyrir því. mbl.is/Eggert

„Er þetta ekki bara þannig að fólk setur sína sterkustu menn í bestu sætin?“ segir Unnur Brá Konráðsdóttir, forseti Alþingis, sem skipar fjórða sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi. Unnur Brá er efsta kona listanum í kjördæminu sem er óbreyttur frá því í fyrra. Páll Magnússon skipar fyrsta sæti listans, Ásmundur Friðriksson annað sæti og Vilhjálmur Árnason það þriðja. Hún bendir á að þetta hafi verið niðurstaðan í prófkjörinu í fyrra þar sem yfir 4.00 manns kusu.

„Það var mál manna að láta það standa því það er stutt síðan það prófkjör fór fram. Ég sætti mig bara við það. Þetta er svona og maður gerir það sem er best fyrir liðið.“

En ert þú ekki sterk og öflug?

„Jú, ég er það og ég ætla að vinna þetta sæti, eða við. Það er bara þannig.“ Unnur brá segist því sátt við sitt fjórða sæti. „Ég ætla að berjast fyrir því. Ég er alveg maður í það.“

Aðspurð hvort það væri ekki eðlilegra og vænlegra fyrir flokkinn að hafa konu ofar á lista í kjördæminu, segir hún það einfaldlega ekki hafa orðið niðurstöðuna í prófkjörinu fyrir ári síðan.

Ánægð með ákvörðun Brynjars Níelssonar

Unnur Brá er hins vegar ánægð með ákvörðun Brynjars Níelssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, sem gaf eftir oddvitasæti listans í Reykjavík suður, til Sigríðar Andersen dómsmálaráðherra. Hún hafi hins vegar ekki verið fordæmisgefandi fyrir önnur kjördæmi. „Það var hans ákvörðun. Hún er mjög flott og góð fyrir flokkinn.“

Brynjar sagðist gefa lítið fyrir það tal að Sjálfstæðismenn treystu ekki konum. Það væri rangt, enda ætti flokkurinn margar frambærilegar konur.

Ólöf Nordal skipaði efsta sæti sæti framboðslistans í Reykjavík Suður fyrra, en vegna fráfalls hennar færðust frambjóðendur upp um eitt sæti listanum, sem átti að öðru leyti að vera óbreyttur fyrir kosningarnar framundan. Vegna ákvörðunar Brynjars mun kona áfram leiða listann, en færðist niður í annað sætið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert