Sjálfstæðisflokkurinn greinilega að braggast

Sjálfstæðisflokkurinn mælist stærstur í nýrri könnun Félagsvísindastofnunar.
Sjálfstæðisflokkurinn mælist stærstur í nýrri könnun Félagsvísindastofnunar. mbl.is/Golli

Nú er vika í alþingiskosningar og meginlínur í fylgi flokkanna farnar að skýrast. „Ég myndi halda að við séum farin að fá ansi glöggar vísbendingar núna, um það hvernig þetta muni á endanum fara,“ segir Grétar Þór Eyþórsson, stjórnmálafræðingur og prófessor við Háskólann á Akureyri, í samtali við mbl.is. Hann segir líklegast að fjóra flokka þurfi til að mynda ríkisstjórn eftir kosningar.

„Það virðist vera eins og að Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkurinn séu að hafa sætaskipti á toppnum. Það virðist hafa verið að síga í þá átt í könnunum almennt,“ segir Grétar, en Sjálfstæðisflokkurinn mælist nú með 25,1% í nýrri könnun Félagsvísindastofnunar fyrir Morgunblaðið á meðan að Vinstri græn mælast með 23,2% fylgi.

„Sjálfstæðisflokkurinn er greinilega eitthvað aðeins að braggast, rétt eins og hann gerði á síðustu metrunum fyrir einu ári síðan. Þetta er svona vísbending í þá átt að hann sé aðeins að ná vopnum sínum, svona alveg í blálokin.“

Grétar Þór Eyþórsson, prófessor við Háskólann á Akureyri.
Grétar Þór Eyþórsson, prófessor við Háskólann á Akureyri. Auðunn Níelsson

Samfylkingin er að sækja í sig veðrið og segir Grétar Þór að jafnaðarmannaflokkurinn virðist algjörlega vera búin að festa sig í sessi sem þriðji stærsti flokkurinn.

„Þeir eru búnir að fá ansi margar mælingar yfir 15% og nokkrar yfir 13% svo það er greinilegt að þeir fara ansi langt með að þrefalda fylgi sitt frá síðustu kosningum.“

Miðflokkurinn mælist með 9,8% og Píratar 8,2% og segir Grétar líklegt að flokkarnir verði á þeim slóðum. Hann segist efast um að Miðflokkurinn fari yfir tíu prósent fylgi á landsvísu. Viðreisn mælist síðan með 5,7% eftir að hafa mælst með 3,4% í síðustu viku.

 „Viðreisn er að ná líflínu, virðist vera. Þó að það sé tæpt, þá virðist þeim hafa tekist að snúa þessari neikvæðu þróun hjá sér að einhverju leyti við og virðast vera líkleg til að ná alla vega inn á þing, þótt það verði nú kannski ekki mikið meira,“ segir Grétar.

Fylgi flokkanna samkvæmt nýrri könnun Félagsvísindastofnunar.
Fylgi flokkanna samkvæmt nýrri könnun Félagsvísindastofnunar. Félagsvísindastofnun

Flokkur fólksins minni en fyrir ári

Flokkur fólksins mælist einungis með 3,3% nú en mældist með 6,5% í síðustu viku. „Ég get alveg sagt þér það, ef þú hefur ekki gáð að því, að þau mælast með minna fylgi núna viku fyrir kosningar, hjá Félagsvísindastofnun, heldur en fyrir einu ári. Þau eru komin á svipaðar slóðir og í fyrra og virðast vera á útleið, eftir að hafa verið að mælast inni í töluverðan tíma.

Svo þarf ég nú varla að segja það með Bjarta framtíð, að þetta stefnir bara í algjört hrun hjá þeim. Maður veit eiginlega ekki hvað getur gerst eða þarf að gerast til að þeim takist að snúa þessu við. Þessi stjórnarslit virðast ekki hafa orðið þeim til góðs. Sumir andstæðingar þeirra hafa haldið því fram að þau hafi gert þetta til að styrkja stöðu sína, sem er nú aldeilis ekki reyndin. Sennilega er fylgið að fara frá þeim og yfir á vinstriflokkana. Það virðist vera að koma í ljós að fjöldi kjósenda þeirra frá því síðast hafi verið ósáttir við stjórnarþátttökuna, svona yfirleitt.“

Líklegast að fjóra flokka þurfi til að mynda stjórn

Grétar Þór segir líklegast að mynduð verði stjórn fjögurra flokka eftir kosningar.

„Ég held að þetta séu aðallega fjögurra flokka stjórnir sem eru í spilunum, svona pólitískt. Það er hægt að leika sér að einhverjum þriggja flokka stjórnum en það eru ekki þær sem eru líklegastar. Miðað við þetta gætum við fengið stjórnarmyndunarviðræður sem taka einhvern tíma og margra flokka stjórn.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert