Formenn flokkanna funda í kvöld

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Formenn flokkanna fjögurra sem nú eiga í formlegum stjórnarmyndunarviðræðum ætla að funda á eftir. Að sögn Katrínar Jakobsdóttir, formanns Vinstri grænna, hafa þingflokkarnir verið að funda hver í sínu lagi í dag og í kvöld ætla formenn flokkanna að hittast og fara yfir málin.

„Ég hef sagt það og stend við það að línur skýrast á morgun, mánudag. Ég vænti þess að þá sjáum við fram úr þessu,“ segir Katrín, spurð hvernig viðræðum miði. Hún segir að enn sé ekki búið að hnýta neitt saman í smáatriðum, ennþá sé verið að fara yfir stóru myndina.

„Það eru mörg þungavigtarmál sem við höfum verið að ræða þar; staðan á vinnumarkaði, kjaramál, kjör öryrkja og aldraða í samhengi við það, uppbyggingin í heilbrigðis- og menntamálaum og samgöngumálum og tekjugrunnur ríkisins og hvernig við viljum tryggja hér áfram efnahagslegan stöðugleika,“ segir Katrín.

„Þetta er auðvitað stóra myndin og svo hafa auðvitað önnur mál verið rædd samhliða og nú erum við bara komin á þann stað að við ætlum að fara yfir þetta á og taka stöðuna við fjögur,“ segir Katrín og á þar við formenn flokkanna fjögurra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert