„Óvissan er lamandi fyrir þjóðfélagið“

Stefanía Óskarsdóttir, stjórnmálafræðingur.
Stefanía Óskarsdóttir, stjórnmálafræðingur. mbl.is/Styrmir Kári

„Þetta var fyrsti kosturinn í stöðunni að Katrín fengi umboðið þar sem það virtist að hún hefði flesta til að tala við. Nú hefur það komið í ljós að þessar fjögurra flokka viðræður hafa verið saltaðar á þeim grundvelli að þetta sé of ótryggur meirihluti og að Píratar séu óáreiðanlegir.“

Þetta segir Stefanía Óskarsdóttir, stjórnmálafræðingur, um þá stöðu sem komin er upp í stjórnarmyndunarviðræðum.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri hreyfingarinnar - Græns framboðs, skilaði umboði til stjórnarmyndunar til forseta Íslands síðdegis eftir að Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn sleit stjórn­ar­mynd­un­ar­viðræðum í hádeginu. Flokkurinn telur meiri­hlut­ann of naum­an til að tak­ast á við þau stóru verk­efni sem fram und­an eru, ásamt því að flokkurinn ber ekki traust til Pírata með svo naum­an meiri­hluta á bak við sig.

Frétt mbl.is: Stjórnarmyndunarviðræðum slitið

Flokk­arn­ir fjór­ir sem átt hafa í viðræðum, það er Fram­sóknarflokkur, Vinstri græn, Sam­fylk­ing og Pírat­ar, hefðu getað myndað 32 þing­manna meiri­hluta, sem er minnsti mögu­legi meiri­hluti á þingi.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, mun ræða við for­menn og full­trúa þeirra flokka sem eiga sæti á Alþingi og kanna hug þeirra til annarra mögu­leika á mynd­un rík­is­stjórn­ar, áður en umboð til stjórnarmyndunar verður afhent á ný.

Frétt mbl.is: Guðni ræðir við aðra formenn

Sú ákvörðun forsetans að veita þingflokkunum svigrúm til að ræða myndun ríkisstjórnar er tekin þar sem ekkert bendir til mögulegs meirihlutasamstarf að svo stöddu, að mati Stefaníu. „Myndun þingræðisstjórnar byggir á því að flokkar geti komið sér saman um samstarf. Það er þá væntanlega ekkert í hendi á þessum tímapunkti um mögulegt meirihlutasamstarf.“

Stefanía segir valdið til að mynda ríkisstjórn sé fyrst og fremst hjá þingflokkunum. „Þeir mynda meirihluta óháð því hvað forsetanum finnst, svona almennt séð. Hlutverk forsetans er að finna út úr því hvað er líklegast í stöðunni, miðað við þær aðstæður sem blasa við.“

Framsókn ekki endilega í lykilstöðu

Framsóknarflokkurinn hafði frumkvæði að slitum stjórnarmyndunarviðræðnanna og segir Stefanía að erfitt sé að átta sig á því hvaða möguleika Framsóknarflokkurinn telji sig hafa í stöðunni sem nú er komin upp.

„Það leyndi sér ekki að strax á sunnudeginum eftir kosningar hafði Sigurður Ingi mestan áhuga fyrir ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og VG, sem að flestum var ljóst að væri nú kannski einhver tormerki á að gæti orðið að veruleika. Hins vegar hafa verið vangaveltur um möguleika á því að Samfylking, Sjálfstæðisflokkur, Vinstri grænir og kannski Viðreisn geti myndað stjórn og þá án aðkomu Framsóknarflokks.“ Ríkisstjórn án Framsóknarflokks er því vel möguleg að mati Stefaníu. „Þetta veltur svo mikið á samstarfsvilja flokkanna þvert yfir.“

Að mati Stefaníu er ómögulegt að segja til um hvenær ný, starfhæf ríkisstjórn verði mynduð. 

„En ég held að ég get talað fyrir hönd margar Íslendinga sem eru mjög óþreyjufullir eftir því að þessi mál leysist tiltölulega fljótlega, en óvissan er lamandi fyrir þjóðfélagið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert