Ræddu við aðila vinnumarkaðarins í dag

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, mætir til fundarins í morgun.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, mætir til fundarins í morgun. mbl.is/Eggert

Formenn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, sem nú eiga í stjórnarmyndundarviðræðum, áttu í dag samtöl við aðila vinnumarkaðarins. Þau samtöl munu halda áfram á morgun. Þetta segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, í samtali við mbl.is.

„Það liggur fyrir að eitt af stærstu verkefnum þeirrar ríkisstjórnar sem tekur við er að ná einhverri sátt á vinnumarkaði. Við vildum hlýða á þeirra sjónarmið, bæði um það hvernig sé hægt að viðhalda efnahagslegum stöðugleika og skapa félagslegan stöðugleika á Íslandi. Það er eitt af því sem verkalýðshreyfingin hefur verið að setja á oddinn.“

Samhliða þeim samtölum var einnig ráðist í vinnu við ýmis málefni og segir Katrín þá vinnu vinnast ágætlega. Mikið verk sé hins vegar enn óunnið. „Það er ekki eins og það hilli alveg fyrir endann á því.“

Hún segir málefnasamninginn unninn jafnóðum, og því sé vinna við hann í raun hafin líka. „Það er ekki eins og eitthvað sé útkljáð og svo farið að skrifa, heldur er þetta gert jafnharðan.“

Setja þarf ágreiningsmál til hliðar

Hún segist ekki geta sagt nákvæmlega til um hvenær málefnasamningurinn verði tilbúinn, en gerir ráð fyrir að línur skýrist fyrir helgi, líkt og talað hefur verið um. „Ég er ekki að segja að hann verði tilbúinn þá. Ég er að segja að þá liggi betur fyrir hvort næst saman. Þetta tekur tíma og fólk þarf að vanda sig, ekki síst þegar um er að ræða svona óvenjulegt samtal.“

Katrín segir ljóst að langt sé á milli flokkanna á ýmsum sviðum og því verði að setja ákveðin ágreiningsmál til hliðar.

 „Það liggur fyrir að þessir flokkar liggja langt hver frá öðrum á sviði málefna og því þarf kannski að nálgast þessi mál öðruvísi en þegar verið er að móta vinstri- eða hægristjórn. Það þarf að horfa í það hvernig sé hægt að setja tiltekin ágreiningsmál til hliðar og einblína á önnur stærri verkefni. Síðan að sjálfsögðu að finna þá fleti sem við eigum sameiginlega í aðferðarfræði og öðru. Þetta eru auðvitað bara samtöl þar sem allt er undir í einu. Kannski aðeins öðruvísi en þegar maður er með flokka sem liggja nær hver öðrum.“

Vill bjóða félögunum upp á skýran valkost

Fyrir liggur að mikil ólga er innan Vinstri grænna vegna þeirrar ákvörðunar að fara í formlegar viðræður við Sjálfstæðis- og Framsóknarflokk. Tveir þingmenn flokksins af ellefu greiddu atkvæði gegn því að fara í viðræðurnar. Margir kjósendur og fólk úr grasrótinni hefur lýst yfir óánægju á samfélagsmiðlum og tugir hafa skráð sig úr flokknum. Þegar málefnasamningur flokkanna þriggja liggur fyrir þurfa bæði flokksráð Vinstri grænna og þingflokkurinn að leggja sína blessun yfir hann.

Bjarni Benediktsson, Katrín Jakobsdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson.
Bjarni Benediktsson, Katrín Jakobsdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson. mbl.is/Eggert

Aðspurð hvort hún óttist, náist saman á milli flokkanna, að samningurinn verði ekki samþykktur af flokksráðinu og jafnvel þingflokknum, segir Katrín:

„Það er auðvitað þannig að á endanum eru það félagarnir sem taka ákvörðun. Þeir þurfa að hafa eitthvað til að taka afstöðu til og þess vegna lagði ég til að við færum í þessar formlegu viðræður. Þannig að okkar félagar hefðu skýran valkost. Ég á ekki von á öðru en að mínir félagar í Vinstri grænum muni leggja sitt mat á þetta út frá málefnunum og út frá því hvort þeir telji að þetta samstarf skili raunverlegu gagni fyrir íslenskt samfélag. Það hlýtur að vera okkar mælikvarði.“

Katrín telur að hún geti náð þannig samkomulagi við formenna hinna flokkanna. Annars sæti hún ekki við borðið með þeim.

Telur sig hafa góða forystu í viðræðunum

Andrés Ingi Jónsson er annar þeirra þingmanna sem greiddi atkvæði gegn viðræðunum. Í samtali við mbl.is á mánudag sagði Andrés að honum þætti það ekki liggja nógu skýrt fyrir að Vinstri grænir hefðu forystu í viðræðunum. Honum þótti vanta að Sjálfstæðisflokkurinn gæfi það til kynna.

Katrín telur sig hins vegar hafa nokkuð góða forystu í umræddum viðræðum. „Ég sit við borðið og mér finnst ég hafa allgóða forystu í þessum viðræðum, alla vega í mínum huga. Það er auðvitað enginn með umboð frá forsetanum. Við sem sitjum við þetta borð frá Vinstri grænum höfum bara trú á okkur. Við erum þarna mætt til að hafa raunveruleg áhrif. Við værum ekki þarna nema við hefðum fulla trú á okkur í því verkefni,“ segir Katrín, en Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna, hefur tekið þátt í viðræðunum með henni.

Hún væntir þess svo að fleiri þingmenn komi að viðræðunum þegar þær eru lengra komnar. Ekki liggur hins vegar fyrir á þessari stundu hverjir það verða.

Viðraðar voru langanir í ráðherrastóla 

Í dag voru einnig viðraðar fyrstu hugmyndir að skiptingu ráðuneyta, en ekkert liggur fyrir í þeim efnum enn þá, að sögn Katrínar.

 „Við getum sagt að fyrstu hugmyndir um það hafi verið viðraðar í dag, en það er engin lending í því. Þetta var meira þannig að fólk væri að viðra sínar langanir og þrár.“

Aðspurð hvort það liggi þó ekki fyrir að hún verði forsætisráðherra í þessari ríkisstjórn, segir Katrín: „Ég hef sagt allan tímann að ég sækist eftir því að leiða ríkisstjórn.“ Það hafi hún ekki gefið eftir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert