Ný könnun: Þrír flokkar taka fram úr

Fylgi flokka samkvæmt könnun MMR í samstarfi við mbl.is, sem …
Fylgi flokka samkvæmt könnun MMR í samstarfi við mbl.is, sem gerð var í dag og í gær.

Samkvæmt glóðvolgri könnun MMR í samstarfi við mbl.is og Morgunblaðið virðast þrír flokkar vera að taka fram úr hinum. Sjálfstæðisflokkurinn heldur fyrra forskoti og hefur hækkað nokkuð frá síðustu könnun, Framsókn heldur áfram á siglingu upp á við og eins heldur Samfylking áfram að bæta við sig. Þá hefur fylgi Flokks fólksins styrkst verulega þó hann sé ekki að blanda sér í toppbaráttuna.

Könnunin var gerð í gær og í dag, en samkvæmt niðurstöðum hennar hefur Sjálfstæðisflokkurinn bætt sig um ríflega 1,5 prósentustig frá síðustu könnun, sem lauk á föstudag, og fer úr 20,3% í 21,8%. Svipaða sögu er að segja af Framsókn, sem fer upp í 14,3%. Samfylkingin bætir minna við sig og fer í 13,9%. Aðrir flokkar á vinstri væng dala hins vegar talsvert frá síðustu könnun, svo að Samfylkingin er að taka nokkra forystu þeim megin.

Mesta fylgisaukningin er hins vegar hjá Flokki fólksins, sem fer upp um 1,8 prósentustig og er því kominn í 7,3%.

Vonbrigði á vinstri væng

Í liðinni viku mátti merkja að flokkar á vinstri væng væru að bæta við sig, en að Samfylkingu undanskilinni virðist sú fylgisaukning mikið hafa gengið til baka. Mestu munar hjá Sósíalistum, sem mælast með 2,5 prósentustigum minna en á föstudag, fara úr 8,6% niður í slétt 6,0%.

Píratar missa einnig flugið, 1,5 prósentustig hefur kvarnast af þeim á þessum dögum og fara úr 11,8% í 10,3%.

Sömuleiðis hlýtur það að vera Vinstri grænum vonbrigði að hafa lækkað frá fyrri könnun. Hún sýndi fyrstu fylgisaukningu þeirra í töluverðan tíma, en samkvæmt henni naut flokkur Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra 12,1% fylgis eftir að hafa lítið hreyfst úr 10,5% vikum saman. Sú hækkun þurrkast að vísu ekki út, en flokkurinn fær 11,0% að þessu sinni.

Miðjan dalar

Miðflokkurinn bætir ögn við sig, en er áfram í bullandi fallbaráttu með 4,7% fylgi. Viðreisn tapar hins vegar nokkru fylgi og er nú með 10,1% fylgi. Það er hins vegar góð viðbót við fylgið í síðustu kosningum.

Rétt er að hafa í huga að fylgismunur upp á brot úr prósentu er iðulega innan vikmarka og því varlegt að lesa of mikið í smávægilegar fylgisbreytingar. Könnunin var gerð í dag og í gær, en þar tóku 909 manns afstöðu til framboðanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert