Með ólíkindum að þetta hafi verið niðurstaðan

Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu félags fanga á Íslandi
Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu félags fanga á Íslandi Ljósmynd/Aðsend

Kjörstjórn fulltrúaráðs Samfylkingarinnar barst ábending þann 9. febrúar síðastliðinn um að vafi gæti leikið á kjörgengi Guðmundar Inga Þóroddssonar, formanns Afstöðu félags fanga, og var hún þess eðlis að hún gaf tilefni til athugunar. Þetta kemur fram í til tilkynningu frá kjörstjórninni.

Var því óskað eftir frekari gögnum frá Guðmundi sem gætu sýnt fram á kjörgengi hans.

Hann hafi hins vegar ekki getað framvísað gögnum sem sýndu fram á kjörgengi með óyggjandi hætti og var hann því fjarlægður af lista frambjóðenda í flokksvalinu, sem fer fram í dag og á morgun.

Skilyrðið sem Guðmundur telst ekki uppfylla til að vera kjörgengur er að vera með óflekkað mannorð, þar sem hann er á reynslulausn.

Tilkynnt um niðurstöðuna í gær

Guðmundur hefur sent frá yfirlýsingu vegna málsins þar sem meðal annars kemur fram að Ásta Guðrún Helgadóttir, formaður kjörstjórnar Samfylkingarinnar, hafi tjáð honum fyrir um mánuði að kjörgengi hans hafi verið rætt innan flokksins en ekki væri lengur deilt um það og hann því kjörgengur.

Hann segir það hafa vakið upp mikla furðu hjá sér þegar kjörstjórn tilkynnti honum í gær, degi fyrir flokksvalið, að hann uppfylli ekki skilyrði fyrir þátttöku í flokksvalinu.

Guðmundur kærði niðurstöðu kjörstjórnar til úrskurðarnefndar Samfylkingarinnar sem staðfesti niðurstöðu kjörstjórnar.

Hann segir með ólíkindum að úrskurðarnefndin hafi komist að þessari niðurstöður eftir að Jón Þór Ólafsson, fyrrverandi formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, sagði í embætti að um leið og einstaklingi hafi verið veitt reynslulausn sé hann kjörgengur.

Afplánun lýkur þegar reynslulausn hefur lokið

Í úrskurðinum vísar nefndin til þess að kveðið sé á um það í kosningalögum að hver sá sem hefur kosningarrétt í sveitarfélagi og hefur óflekkað mannorð, sé kjörgengur í sveitarstjórn.

Nefndin vísar til þess í kosningalögum að enginn telst hafa óflekkað mannorð sem hefur hlotið hefur dóm fyrir refsivert brot og ekki lokið afplánun „að fullu“.

Þar er síðan vísað til þess að þar sem orðalagið „að fullu“ finnist í lögunum að þá teljist afplánun ekki lokið fyrr en einstaklingur hefur lokið reynslulausn samkvæmt áttunda kafla fullnustulaga.

- Ekki náðist í Ástu Guðrúnu Helgadóttur, formann kjörstjórnar, við gerð fréttarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert