Gagnsæi í verðlagningu og sveigjanleg þjónusta

Málma býður fyrirtækjum og einstaklingum upp á að fá kör …
Málma býður fyrirtækjum og einstaklingum upp á að fá kör frá fyrirtækinu endurgjaldslaust. Þegar körin eru orðin full kemur Málma og fjarlægir körin auk þess að greiða fyrir brotamálminn sem er fjarlægður. Allt er þetta viðskiptavininum að kostnaðarlausu. Ljósmynd/Aðsend

„Við bjóðum fyrirtækjum og einstaklingum upp á að fá snyrtileg blá kör frá okkur til að safna sínum brotamálmi í. Á heimasíðu okkar er svo einfalt að panta losun á körum þegar þau eru orðin full. Við komum og sækjum körin viðskiptavinum að kostnaðarlausu auk þess að greiða fyrir málmana sem við fjarlægjum,“ segir Högni Auðunsson framkvæmdastjóri Málmaendurvinnslunnar.

„Það er því enginn kostnaður við að fá körin eða að vera í þessari þjónustu hjá okkur en viðskiptavinir fá greitt fyrir það magn sem Málma fjarlægir frá þeim. Þetta er mjög vinsælt hjá okkur og ég held að við séum með um 1.200 kör í þjónustu í dag. Við erum með tvo kassabíla sem eru stöðugt úti að sækja og skipta út körum. Áður en við komum á markaðinn þurfti fólk að greiða fyrir svona lagað en við látum málminn bara standa undir sér. Við erum líka með gáma fyrir stærri afgreiðslur og þá er hægt að fá gáma að kostnaðarlausu fyrstu átta dagana og að sama skapi færðu greitt fyrir málminn sem fjarlægður er.

Dagarnir umfram átta hafa svo kostað um 2.000 krónur á dag. Þetta er sömuleiðis mjög vinsælt hjá okkur enda var þetta áður fyrr mjög dýrt. Við erum alltaf að bæta í gámafjöldann til að geta aukið við þjónustuna okkar.“

Áður en Málma var stofnað árið 2019 var mikil fákeppni …
Áður en Málma var stofnað árið 2019 var mikil fákeppni á þessum markaði en viðskiptavinir hafa frá upphafi tekið fyrirtækinu vel. Ljósmynd/Aðsend

Stöðugur vöxtur frá upphafi

Málmaendurvinnslan var stofnuð árið 2019 og Högni viðurkennir að það hafi fyrst og fremst verið vegna þess hversu mikil fákeppni ríkti á þessum markaði. „Ég hafði starfað við endurvinnslu brotamálms um þó nokkurt skeið og þekkti markaðinn því vel. Svo þekkti ég eigendur í stóru endurvinnslufyrirtæki í Hollandi og við ákváðum í sameiningu að stofna nýtt fyrirtæki hér á landi. Við sendum allt efni til Hollands en þar eru fullkomnar aðstæður til endurvinnslu,“ segir Högni og bætir við að viðskiptavinir hafi frá upphafi tekið fyrirtækinu vel og kunnað að meta gagnsæi í verðlagningu og sveigjanlega þjónustu.

„Málma var þá nýtt fyrirtæki á fákeppnismarkaði en á honum störfuðu einungis tvö önnur fyrirtæki. Við brutum þetta aðeins upp og fórum til dæmis að auglýsa verðin sem í boði voru. Það hefur virkað vel því það hefur verið stöðugur vöxtur hjá okkur frá upphafi. Vextinum hefur fylgt mikil uppbygging og mikið hefur gerst á þessum tíma. Það sem hefur verið mest krefjandi fyrir Málma eru einmitt fylgifiskar þessarar velgengni því við höfum stöðugt þurft að bæta við okkur nýjum vélum, bílum og mannskap.“

Auðunn Bjarni Ólafsson, faðir Högna, ásamt Högna Auðunssyni en Auðunn …
Auðunn Bjarni Ólafsson, faðir Högna, ásamt Högna Auðunssyni en Auðunn var stoð og stytta Högna í upphafi rekstursins. Ljósmynd/Aðsend

Mikil reynsla og þekking

Í dag eru 13 fastráðnir starfsmenn starfandi hjá Málma auk þess sem Högni talar um að fyrirtækið sé í samstarfi við Vinnumálastofnun. „Þaðan fáum við fjóra starfsmenn sem eru í hálfsdagsstörfum þannig að samtals erum við með 17 starfsmenn. Það er mjög mikil þekking og reynsla hjá okkur og við höfum verið með sama starfsfólkið frá upphafi. Flest höfum við áður starfað við endurvinnslu brotajárns þannig að við erum öllu vön. Enda er mikið talað um hversu hátt þjónustustigið er hjá okkur og við tökum vel á móti fólki,“ segir Högni og talar um að aðstaðan í Flugumýri í Mosfellsbæ, þar sem fyrirtækið er, sé mjög góð.

„Ef viðskiptavinir koma með málminn sinn sjálfir þá afgreiðum við þig inni. Þú keyrir bara hér í gegn og færð svo greitt fyrir málminn samdægurs.“

Hjá Málma starfa 17 starfsmenn og flestir þeirra hafa starfað …
Hjá Málma starfa 17 starfsmenn og flestir þeirra hafa starfað við endurvinnslu í langan tíma. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert