Vín er ekki bara eitthvað í flösku

Hjá Rolf Johansen & Co er boðið upp á ráðgjöf …
Hjá Rolf Johansen & Co er boðið upp á ráðgjöf og smökkun á drykkjarföngum fyrir brúðkaupsveisluna en sú þjónusta er sífellt að verða vinsælli enda mikilvægt að vanda valið á stóra deginum. Ljósmynd/Colourbox

„Við viljum tryggja að upplifunin verði sem allra best. Þetta er stór dagur í lífi brúðhjónanna og fjölskyldna þeirra og það vilja allir vanda sig,“ segir Birkir Þór Elmarsson, vörumerkjastjóri léttvína hjá Rolf Johansen & Co, en þar er boðið upp á ráðgjöf og smökkun á drykkjarföngum fyrir stóra daginn. Birkir talar um að það sé sífellt að færast í vöxt að fá ráðgjöf um vín og til að mynda hafi Rolf Johansen aldrei þurft að auglýsa smökkun og ráðgjöf, fólk hringi bara inn og falist eftir ráðum.

„Í brúðkaupum er boðið upp á góðan mat og þá vilja flestir vera með góð vín með matnum. Það verður meiri samhljómur ef matur og vín passa saman. Það þarf ekki að kosta mikið meira að velja rétt vín með hverjum rétti en upplifunin verður þeim mun betri. Sumar gerðir vína ganga bara alls ekki með ákveðnum mat. Það er leiðinlegt að splæsa í nautasteik í aðalrétt en vera svo með þunnt vín sem verður eins og vatn. Það virkar bara alls ekki.“

Smakka vín með matnum

Áður en fólk kemur í ráðgjöf og smökkun er mikilvægt fyrir Birki að vita hvaða mat er boðið upp á til að hann geti valið vín sem passar fullkomlega við matinn. „Brúðhjón geta bæði komið hingað og smakkað en það er líka töluvert um að fólk smakki vínið frá okkur um leið og það smakkar matinn frá veisluþjónustunni. Aðalatriðið er að fólk velji þau vín sem það hefur raunverulegan áhuga á að hafa í veislunni og bjóða sínum gestum upp á. Það skiptir mestu máli að brúðhjónin sjálf séu búin að smakka það sem þau ætla að bjóða upp á og séu ánægð með valið,“ segir Birkir sem sjálfur lagði mikla hugsun í hvaða mat og vín hann bauð upp á þegar hann gifti sig.

„Þetta er svo mikil gleðistund og ég vildi vanda mig við að velja góð vín og mat. Við vorum með standandi partí og fingramat. Svo vildum við alls ekki að gestirnir myndu bíða eftir okkur þannig að það voru allir í partíi á meðan við vorum í myndatöku fyrir utan. Stór partur af því að brúðhjónin njóti sín í veislunni er að vera viss um að gestirnir séu að njóta sín líka. Að allt sem er borið á borð fyrir þig og gesti þína sé gott. Ég held að oft sé fólk að velja vín út í loftið, jafnvel út frá verði, en það eru engin tvö vín eins þó þau kosti jafnmikið. Stundum þarf bara að bæta við örlitlum pening til að fá mun betri upplifun fyrir alla.“

Birkir Þór Elmarsson segir mikilvægt að velja vín sem passar …
Birkir Þór Elmarsson segir mikilvægt að velja vín sem passar við matinn í veislunni. mbl.is/Árni Sæberg

Óáfeng vín sífellt vinsælli

Birkir talar um að hann aðstoði fólk við allt hvað varðar val á víni sem og innkaupin. „Oft er hægt að kaupa vínið frá okkur í gegnum veislusalina og við sendum vínið í salinn að kostnaðarlausu. En ef það er farið í gegnum ÁTVR þá getum við aðstoðað við það líka. Það er okkur mikilvægt að spara fólki sporin enda í mörg horn að líta í þessum mikla undirbúningi fyrir brúðkaupið,“ segir Birkir og bætir við að svo megi ekki gleyma þeim sem kjósa að drekka ekki áfengi.

„Það hefur aukist mjög mikið að fólk vilji bjóða upp á óáfengt vín og bjór í veislum. Það er mikilvægt að allir geti fengið sér eitthvað við sinn smekk og við erum með töluvert úrval af óáfengu víni og bjór. Þetta er stækkandi hópur sem vill ekki áfenga drykki og þá verður að vera eitthvað í boði fyrir þá. Það má ekki alltaf vera bara sódavatn og sítróna,“ segir Birkir og hlær.

„Við flytjum inn vín frá Kaliforníu þar sem búið er að fjarlægja alkóhólið úr víninu og eftir verður vínberjasafinn. Þess háttar vín verða alltaf betri og betri og ég er sérstaklega hrifinn af hvítvíninu og freyðivíninu. Í vor ætlum við svo að bæta gerjuðu tei frá Englandi við úrvalið okkar en það er alveg frábær vara í ótrúlega flottum flöskum. Þetta er flott fyrirtæki á mikilli uppleið og það er vandað rosalega til verka enda er þetta te komið inn á marga frægustu veitingastaði Bretlandseyja. Ég fann strax þegar ég smakkaði teið að þetta væri eitthvað sem veitingastaðir ættu að bjóða upp á og eitt af fáum skiptum sem svona vara höfðar strax til mín.“

Hjarta og sál í öllu sem það gerir

Rolf Johansen sjálfur stofnaði Rolf Johansen & Co árið 1957 og fyrirtækið verður því sjötíu ára eftir þrjú ár. Fyrirtækið er enn í eigu fjölskyldunnar og hluti af henni starfar hjá fyrirtækinu. Þetta er því sannkallað fjölskyldufyrirtæki enda segir Birkir að það sé mjög gott að vinna þar. „Ég hef verið hér í hátt í 30 ár og þetta hefur verið ótrúlega skemmtilegur og gefandi tími. Það hefur verið skemmtilegt að kynnast þessum heimi, vínræktun og fyrirtækjunum sem starfa í því, og ég hef kynnst mörgu skemmtilegu fólki. Við eigum helst samskipti við fjölskyldufyrirtæki og ég hef horft á börn eigenda vaxa upp og taka við fyrirtækinu. Það er ótrúlegt að vera í þessum tengslum og sjá ástríðuna hjá fjölskyldunum. Vín er ekki bara eitthvað í flösku, það er svo mikil saga hjá mörgum þessara vínfyrirtækja,“ segir Birkir og bætir við að hjá Rolf Johansen & Co sé mikil áhersla lögð á að meginþorri birgjanna sé líka fjölskyldufyrirtæki.

„Þannig að þetta sé fólk sem er með hjarta og sál í öllu því sem það gerir. Við elskum það. Við viljum það frekar en að skipta við fyrirtæki sem framleiða milljónir flaskna. Auk þess eru flestir minni framleiðendur með sínar eigin ekrur sem hafa kannski verið í eigu fjölskyldunnar í einhverjar aldir og framleiða tugi þúsunda flaskna. Þetta fólk er langflest löngu farið að vinna lífrænt þó það sé ekki með lífræna stimplun því það er bara svo dýrt fyrir lítil fyrirtæki að fá þann stimpil. En þetta fólk ræktar sín vín í sátt við móður náttúru og við erum mjög hrifin af því.“

Frekari upplýsingar um vöruúrval Rolf Johansen má finna á www.rjc.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert