Kviðfita eykur hættu á ristilkrabba

Þeir sem bera mikla fitu um sig miðja kunna að vera áhættuhópi hvað ristilkrabba varðar að því er greint var frá á heilsuvef msnbc.com á dögunum. Rannsókn sem tók til tæplega 370.000 einstaklinga frá níu Evrópulöndum, sýndi fram á að bæði konur og karlar sem söfnuðu fitu um sig miðja voru líklegri til að fá ristilkrabba en þeir sem voru mittisgrannir. Mittisstærð og hlutfall milli mittis- og mjaðmaummáls gefa góða vísbendingu um kviðfitu og virðist að sögn rannsakenda mikilvægari mælieining við mat á hættu á ristilkrabba en heildarþyngd einstaklingsins. Rannsóknin benti raunar til þess að hár BMI-þyngdarstuðull - sem mælir þyngd út frá hæð - tengdist í engu aukinni hættu á ristilkrabba meðal kvenna, en geri það hins vegar meðal karla.

Niðurstöður rannsóknarinnar, sem skýrt var frá í Journal of the National Cancer Institute sl. miðvikudag, benda því til þess að kviðfita sé sérlega áhrifamikill þáttur. Voru kviðmiklir karlar þannig 39% líklegri til að greinast með ristilkrabba en mittisgrennri kynbræður þeirra og konur 48%.

"Einstaklingar sem eru magamiklir bera oft mikið magn fitu umhverfis magalíffærin en þessi gerð fitu er virkari er kemur að efnaskiptum," útskýrði dr. Tobias Pischon sem fór fyrir rannsókninni og starfar við þýsku næringarmiðstöðina í Potsdam-Rehbrücke.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert