Tölvuþrjótar sviku milljónir út úr Nordea

Reuters

Sænski bankinn Nordea hefur orðið fyrir barðinu á þaulskipulögðu netsvindli þar sem tölvuþrjótar hafa stolið andvirði a.m.k. 70 milljóna íslenskra króna. Viðskiptavinir Nordea hafa undanfarna 15 mánuði fengið tölvupóst með sérsniðinni veiru, svokölluðum trójuhesti sem beindi netnotendum á falska heimasíðu og skráði niður notendaupplýsingar til að fá aðgang að bankanum. Þetta kemur fram á vefsíðunni ZDNet UK.

Talið er að um sé að ræða mestu svik sem gerð hafa verið á netinu.

Tölvunotendur hafa fengið tölvupóst í nafni Nordea, þar sem þeim býðst að hlaða niður forriti til að stöðva ruslpóst. Þeir sem sóttu forritið hlóðu raunverulega niður afbrigði trójuhestsins haxdoor.ki, sem skráir niður upplýsingar sem slegnar eru á lyklaborð sýktrar tölvu. Veiran sendi svo þrjótunum upplýsingar þegar farið var inn á heimabanka Nordea.

Notendur fengu þá upp síðu sem tilkynnti að vefsíða bankans lægi niðri vegna tæknilegra vandamála, en á meðan fóruu þrjótarnir inn á heimabankann og létu greipar sópa, þ.e. millifærðu fé út af reikningum viðkomandi.

Í einhverjum tilvikum var þjófnaðurinn stöðvaður í tíma, þar sem að um mjög háar upphæðir var að ræða, en í öðrum tilvikum, þar sem lægri upphæðir voru teknar af reikningum voru millifærslurnar kláraðar án þess að athugasemdir væru gerðar.

Bankinn hefur endurgreitt viðskiptavinum sínum það fé sem stolið var, en talsmaður bankans segir þó að mistökin liggi ekki hjá bankanum. Viðskiptavinir hafi veirð blekktir til að gefa upp upplýsingarnar og að fæst fórnarlambanna hafi haft virkar veiruvarnir upp settar á tölvum sínum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert