Tölvuþrjótar taldir munu einbeita sér að netinu í ár

Tölvuþrjótar eru taldir munu einbeita sér að netinu á þessu ári frekar en tölvupósti. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu, frá tölvufyrirtækinu Sophos en fyrirtækið komst að þeirri niðurstöðu, að yfir þriðjungur bandarískra vefsíðna hýsi tölvuveirur og sendi frá sér meiri ruslpóst en vefsíður í öðrum löndum.

Sophos segir að stöðugt fjölgi þeim vefsíðum, sem hafi sýkst af tölvuveirum. Hæst er hlutfallið í Bandaríkjunum, eða yfir 34%. Í Kína eru 31% vefsíðna sýkt, 9,5% í Rússlandi, 4,7% í Hollandi og 3,2% í Úkraínu, svo nokkuð sé nefnt.

Breska ríkisútvarpið BBC segir, að tölvuþrjótar eigi nú einna auðveldast með að komast inn í tölvukerfi stórfyrirtækja eða stofnana gegnum netið því æ fleiri notendur tengist ótryggum netþjónum og sæki mynd- og hljóðskrár.

Sophos segir, að tölvuþrjótar séu nú að mestu hættir að reyna að dreifa tölvuveirum sem viðhengjum með tölvupósti. Þess í stað vísi tölvupóstar nú á netsíður og ef farið er inn á þær síður geta tölvur viðkomandi sýkst. Oft hlaðast niður svonefndir Trójuhestar, forrit sem gera tölvuþrjótum kleift að ná stjórn á tölvunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert