Veiddu 450 kílóa smokkfisk

Smokkfiskurinn þungi kemur úr djúpinu.
Smokkfiskurinn þungi kemur úr djúpinu. Reuters

Áhöfn nýsjálensks línuveiðibáts fékk óvenjulegan afla þegar smokkfiskur, sem vó 450 kíló kom á einn krókinn. Smokkfiskurinn var um 10 metra langur og er um 150 kílóum þyngri en næst þyngsti smokkfiskur, sem veiðst hefur svo vitað sé.

Jim Anderton, sjávarútvegsráðherra Nýja-Sjálands, sagði að báturinn hefði verið á línuveiðum í Rosshafi nálægt Suðurskautslandinu. Þegar línan var dregin upp var smokkfiskurinn að gæða sér á tannfiskbeitu, sem var á krókunum.

Anderton sagði, að áhöfnin hefði verið í tvær klukkustundir að fást við smokkfiskinn og tókst loks að bregða um hann neti og hífa um borð. Fiskinum var síðan komið fyrir í lestinni.

Talið er að þetta sé fyrsta karldýrið af þessari smokkfiskategund, sem næst í heilu lagi. Smokkfiskurinn hefur verið frystur og verður afhentur vísindamönnum til rannsóknar. Afar lítið er vitað um þessa tegund, sem ber latneska nafnið mesonychoteuthis hamiltoni. Hún hefst við á miklu dýpi í Suðurhöfum og er fjarskyldur ættingi risasmokkfisksins, sem hefst við norðar á hnettinum. Þeir smokkfiskar geta orðið risastórir, eða allt að 12 metra langir, en þeir eru ekki eins þungir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert