Vakti athygli vísindamanna hve lítið var um él í norðanáttinni

Svipmynd úr könnunarfluginu.
Svipmynd úr könnunarfluginu.

Í gær var fjórða flugið farið í röð rannsóknaflugferða fjölþjóðlegs vísindahóps sem rannsakar áhrif Grænlands á veður og veðurspár. Eitt af því sem vakti athygli vísindamannanna sem flugu í gær var að há ósongildi voru mæld með óreglulegu millibili þegar flogið var í um 7500 feta hæð. Þetta bendir til þess að loft frá heiðhvolfinu hafi blandast inn í veðrahvolfið á litlum kvarða, en slíkt gerist stundum í tengslum við djúpar lægðir. Einnig vakti athygli hve lítið var um él í norðanáttinni þangad til komið var inn yfir norðanvert Ísland, þar sem líklegt er ad fjalllendið hafi valdið lyftingu loftsins og aukinni skýjamyndun.

Það mun taka marga mánuði að vinna úr öllum þeim hágæða athuganagögnum sem safnað var í gær á svæði þar sem athugananetið er mjög gisið. Ferðinni var heitið norðaustur fyrir land og á þar að rannsaka eðli smálægðar rétt sunnan við Jan Mayen. Vísindamenn í flugvélinni flugu beint í gegnum lægðarmiðjuna og slepptu þar sondum sem mæla hitastig, vind og raka á leið sinni niður í gegnum veðrahvolfið, en nákvæm staðsetning lægðarinnar fékkst með gervitunglamyndum.

Eftir að hafa tekið tvo slíka þverskurði af lægðinni var haldið í hávestur að Grænlandi til að rannsaka víxlverkun sjávar og lofts í snarpri norðanáttinni sem ræður ríkjum á þessu hafsvæði þessa dagana. Fyrst var sondum sleppt á sama hátt og áður var lýst, en síðan var snúið við og flogið aftur sömu leið u.þ.b. 400 km í austurátt og þá í aðeins 30 m hæð yfir sjó.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert