Eltast við 3200 ára gamalt hár

Egyptar hafa sent hóp af fornleifafræðingum til Frakklands til að endurheimta 3200 ára gamla hárþræði af múmíu Ramsesar faraós II. Tilvist hársins varð ljós seint á síðasta ári þegar hlutar af því voru boðnir til sölu á netinu fyrir allt að 2500 evrur.

Auk hársins var boðið upp á agnarsmáa hluta af varðveittu fataefni múmíunnar. Seljandinn kvaðst hafa erft leifarnar frá föður sínum sem hafði unnið á franskri rannsóknarstofu sem sá um greiningar og endurbyggingu á líki Ramsesar.

Franskir fornleifafræðingar brugðust illa við þeim fréttum að hárið væri til sölu og handsömuðu yfirvöld hinn meinta seljanda sl. nóvember. Yfirmaður Egypskra fornmuna hrósaði frönskum yfirvöldum fyrir framtak þeirra og sagði að „þjófnaðurinn á hárinu hefði ekki verið viðeigandi hegðun“.

Umrædd múmía var þekkt undir heitinu Ramses hinn mikli, en hann var konungur Egyptalands í rúm 60 ár á tímabili ættarveldis Faraóanna. Múmía hans var uppgötvuð árið 1881 og var hýst í safni í Kaíró. Um 1970 uppgötvuðu yfirvöld að líkið hrörnaði hratt og var það sent til Parísar þar sem það fékk viðeigandi meðferð til að varðveitast lengur, að því er fram kemur á vef Reuters.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert