Tjáning tilfinninga með orðum virðist draga úr styrk þeirra

Að tjá tilfinningar á borð við depurð eða reiði með orðum virðist draga úr styrk þeirra, að því er bandarískir heilasérfræðingar greindu frá í dag. Niðurstöður þeirra kunna að geta útskýrt hvers vegna samtalsmeðferð - eða einfaldlega spjall við skilningsríkan vin - getur dregið úr vanlíðan.

Vísindamennirnir greina frá niðurstöðum rannsóknar sinnar í tímaritinu Psychological Science. Þeir segja að tal um neikvæðar tilfinningar auki virkni í þeim hluta heilans sem stjórnar skyndihvötum. „Þetta svæði virðist virka eins og hemill,“ sagði Matthew Lieberman, við Háskólann í Kaliforníu, sem stjórnaði rannsókninni.

Teknar voru sneiðmyndir af heilanum í 30 manns, 18 konum og 12 körlum, um leið og þeim voru sýndar myndir af andlitum sem tjáðu sterkar tilfinningar. Þátttakendur voru ýmist beðnir að flokka tilfinningarnar með orðum eins og dapur eða reiður, eða velja á milli tveggja eiginnafna, eins og Harry eða Sally, eftir því hvort andlitið var af konu eða karli.

Í ljós kom að þegar orð sem tjá tilfinningar voru tengd við myndirnar dró úr viðbrögðum í þeim hluta heilans sem stjórnar ótta, ofsahræðslu og öðrum sterkum tilfinningum. Í staðinn jókst virkni í þeim heilahluta sem stjórnar skyndihvötum. Það var eini hluti heilans sem var virkari þegar valið varð tilfinningaorð en þegar valið var eiginnafn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert