Japanskar konur og íslenskir karlmenn lifa að meðaltali lengst

Konur í Tókýó.
Konur í Tókýó. Reuters

Japanskar stúlkur sem komu í heiminn í fyrra munu ná að meðaltali 85,8 ára aldri, og er þetta hæsti meðalaldur kvenna í heiminum, samkvæmt tölum sem japönsk stjórnvöld birtu í vikunni. Það eru aftur á móti íslenskir karlar sem verða að meðaltali allra karla elstir í heiminum, eða 79,4 ára. Japanskir karlar verða næstelstir, 79 ára að meðaltali.

Frá þessu greinir fréttastofa Reuters.

Næstelstar verða konur á Taíwan, 84,6 ára að meðaltali, og þar á eftir spænskar og svissneskar, sem verða 83,9 ára.

Japanskar konur hafa í 22 ár náð hæstum meðalaldri, en vísindamenn telja að það megi m.a. þakka heilsusamlegu mataræði þeirra og nánum félagstengslum. Bætt meðhöndlun þriggja helstu banameina aldraðra, krabbameins, hjartasjúkdóma og heilablóðfalls, hefur einnig hækkað meðalaldurinn, sem er nú hærri en nokkru sinni, að því er haft er eftir japönskum embættismanni.

Samkvæmt Heimsmetabók Guinness er Yone Minagawa, sem er 114 ára, elst allra í heiminum, og Tomoji Tanabe, sem er 111 ára, er allra karla elstur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert