Prius grænasti bíllinn á lista Svisslendinga

Toyota Prius er efstur á lista svissneskra yfirvalda yfir grænustu bílana í heiminum, þ.e.a.s. þá bíla sem hafa minnst umhverfisáhrif í akstri. Á listanum eru alls sex þúsund bílar, og sá sem verst kemur út er Nissan Patrol GR 3,0. Prius er tvíknúinn, þ.e. gengur bæði fyrir hefðbundnu eldsneyti og rafmagni.

Listi Svisslendinga hefur ekki verið endanlega útgefinn, en stjórnvöld segja að vonir standi til að hann verði endurskoðaður áður en hann verður endanlega birtur á næsta ári. Tilgangurinn með listanum sé m.a. að hvetja ökumenn til að kaupa þá bíla sem hafi minnst áhrif á umhverfið. Einnig mætti nota listann til að ákvarða losunarskatt á bíla.

Tvíknúnir bílar og smábílar eru í flestum efstu sætunum, þ.á m. Fiat Punto Bipower og Panda Bipower, einnig Daihatsu Cuore og Citroen C3 GNV.

Toyoto hefur smíðað Prius síðan 1997 og er hann mest seldi tvíknúni bíllinn á markaðinum, en tvíknúnir bílar eru aðeins brot af bílaflota heimsins. Mest er salan á Prius í Bandaríkjunum, en þar er um helmingur allrar sölu á bílnum.

Frétt NZZ am Sonntag

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert