Kossar skipta konur meira máli en karla

Reuters

Kossar eru ákaflega mikilvægir að mati kvenna, mikilvægari en karlar telja þá vera, samkvæmt niðurstöðum bandarískra vísindamanna. Meginástæðan er sú, að konur nota kossa til að vega og meta hvernig sá sem þær kyssa myndi reynast sem lífsförunautur, og síðar meir til að viðhalda nánd og meta ástand sambandsins.

Frá þessu greinir fréttavefur breska ríkisútvarpsins, en niðurstöður rannsóknarinnar, sem gerð var við New York State University, með þátttöku rúmlega 1.000 stúdenta, birtust í Evolutionary Psychology.

Körlum þóttu kossar ekki eins mikilvægir og litu helst á þá sem leið til að auka líkurnar á samförum. Einnig kom í ljós, að karlar voru ekki jafn vandfýsnir og konur varðandi það hvern þeir kysstu.

Karlar voru einnig líklegri til að hafa samfarir við rekkjunaut sem þótti ekki aðlaðandi og fallast á að hafa samfarir við einhvern sem þeim þótti ekki kyssa vel.

Kossar voru aftur á móti mikilvægari til tengslamyndunar hjá konum. Þær töldu kossa mikilvæga í langtímasamböndum, en karlar töldu aftur á móti að því lengur sem samband standi því minna verði mikilvægi kossa.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka