Samskiptasíður eru fyrirtækjum dýrkeyptar

Samskiptasíður á borð við Facebook og MySpace geta reynst fyrirtækjum dýrkeyptar ef starfsfólk ver miklum tíma á þeim, samkvæmt nýrri rannsókn sem gerð var í Bretlandi. Segja höfundar rannsóknarinnar að það geti kostað fyrirtæki þar í landi allt að 130 milljónir punda á dag ef starfsfólk hafi aðgang að samskiptasíðum í vinnutímanum.

Frá þessu greinir fréttavefur BBC, en niðurstöður rannsóknarinnar eru byggðar á athugun meðal 3.500 fyrirtækja í Bretlandi. Sum fyrirtæki hafa þegar lokað fyrir aðgang starfsmanna að Facebook.

Lögfræðifyrirtækið Peninsula stóð að rannsókninni, og hvetur framkvæmdastjóri þess, Mike Huss, fyrirtæki til að loka fyrir aðgang starfsfólks að samskiptasíðum. „Hvers vegna skyldu vinnuveitendur leyfa starfsfólki að eyða tveim tímum á dag á Facebook á fullum launum?“

Huss hefur litla trú á þeirri leið, sem sum fyrirtæki hafa farið, að stýra aðgangi starfsfólks að samskiptasíðum, eins og til dæmis að leyfa hann í hádegishléi. Þetta segir hann að sé óþarflega dýr leið, það væri einfaldara og ódýrara að loka alveg fyrir aðgang að síðunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert