Klamydía getur valdið ófrjósemi karla líkt og kvenna

mbl.is

Klamydía getur leitt til ófrjósemi karla vegna þeirra áhrifa sem sjúkdómurinn hefur á gæði sæðis karlmannsins. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn spænskra og mexíkóska vísindamanna. Fréttavefur Times greinir frá þessu. Áður var talið að klamydía hefði einungis áhrif á frjósemi kvenna en samkvæmt rannsókninni þá eru karlar þar ekki undanskildir. Alls greindust rúmlega 1.700 klamydíutilfelli á Íslandi á síðasta ári.

Þrisvar sinnum fleiri sæðisfrumur karlmanna sem eru smitaðir af klamydíu eru ónýtar og því ólíklegra að smitaðir karlar geti eignast börn með eðlilegum hætti.

Klamydíusýking orsakast af bakteríu (Chlamydia trachomatis). Þessi baktería getur sýkt bæði kynfæri og augu. Tíðni sjúkdómsins hefur aukist mikið og vitað er að þúsundir einstaklinga hafa smitast hérlendis á undanförnum árum, samkvæmt upplýsingum á vef landlæknisembættisins. Klamydíusmit berst milli manna við snertingu slímhúða, venjulega við samfarir. Fæstar konur og einungis helmingur karla fá einkenni klamydíusýkingar.

Einkenni geta horfið á fáeinum dögum hjá báðum kynjum og blundar þá sýkingin í langan tíma. Hún getur blossað upp síðar af mismunandi orsökum, t.d. vegna annarra sýkinga. Hægt er að bera klamydíusmit í langan tíma áður en sýkillinn breiðist út og byrjar að valda einkennum. Fjölmargir fá aldrei nein einkenni þó þeir séu sýktir.

Ef ekki er brugðist fljótt við klamydíusýkingu er hætta á bólgum í eggjaleiðurum kvenna og jafnvel bólgu í eistum karla. Klamydía er algengasta orsök bólgu í eggjaleiðurum og getur slík bólga leitt til ófrjósemi eða utanlegsfósturs. Klamydía getur sýkt augu og valdið verulegri bólgu með tímabundinni blindu. Því oftar sem einstaklingur sýkist þeim mun meiri líkur eru á skaðlegum aukaverkunum svo sem ófrjósemi.

Frétt á vef Times

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert