Sláandi spá um hafísbráðnun

Hlýnun loftslags á jörðinni er m.a. talin ógna tilvist ísbjarna.
Hlýnun loftslags á jörðinni er m.a. talin ógna tilvist ísbjarna. AP

Bandarískir vísindamenn kynntu á ráðstefnu Samtaka jarðeðlisfræðinga þar í landi einhverja mest sláandi spá sem fram til þessa hefur sést um bráðnun norðurskautshafíssins, en hún gerir ráð fyrir að norðurpóllinn verði íslaus á sumrin strax 2013.

Þetta kemur fram á fréttavef breska ríkisútvarpsins, BBC.

Wieslaw Maslowski sagði á ráðstefnunni að í fyrri spám hafi bráðnunarferlið verið vanmetið. Sumarbráðnun í ár var slík, að íshellan varð 4,13 milljónir ferkílómetra, og hefur ekki mælst minni á síðari tímum. Þetta hafi vísindamenn þó ekki tekið með í reikninginn við líkanagerð.

„Spá okkar um sumarbráðnun 2013 tekur ekki með í reikninginn tvær síðustu lágmarkstölur, frá 2005 og 2007,“ sagði Maslowski. „Í ljósi þess mætti segja að ef til vill séu spár okkar fyrir 2013 of varfærnar,“ sagði hann.

Maslowski kveðst telja að mörg lofslagslíkön vanmeti þann hita sem berist til norðurskautsins með sjávarstreymi. Sú tækni sem hann og samstarfsmenn hans noti gefi mun raunsannari mynd af framvindunni.

Annar sérfræðingur í norðuríhafsrannsóknum, Peter Wadhams, prófessor við Cambridgeháskóla í Bretlandi, tekur í sama streng, og segir líkan Maslowskis gefa réttari mynd af ástandinu en mörg önnur, því að það taki með í reikninginn að ísinn þynnist hraðar en ummál hans minnkar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka