Ódýrasti bíll í heimi

Hulunni var svipt af Nano-bifreiðinni í Nýju-Delí á Indlandi í …
Hulunni var svipt af Nano-bifreiðinni í Nýju-Delí á Indlandi í dag. Hér sést stjórnarformaður Tata Group, Ratan Tata, kynna bifreiðina í dag. AP

Indverska fyrirtækið Tata Group svipti hulunni af ódýrasta bíl heims í dag. Bifreiðin er sögð kosta 2.500 dali ( tæpar 160.000 kr.) og er því spáð að hún muni valda straumhvörfum í samgöngum á Indlandi, en þar býr rúmur milljarður.

Bifreiðin er fjögurra dyra og fimm sæta. Hún er væntanleg á markað síðar á þessu ári og er vonast til þess að Indverjar muni taka bifreiðinni vel, fjárfesta í henni og leggja frá sér vélhjólin.

Bíllinn, sem kallast Nano, er afar líkur Smart-bifreið. Vélin, sem er 624 rúmsentímetrar, afkastar 33 hestöflum. Í einföldustu útgáfunni er engin loftkæling, engar rafstýrðar rúður og ekkert vökvastýri. Það verður hinsvegar hægt að fjárfesta í tveimur útgáfum til viðbótar þar sem aukin þægindi er að finna.

Hinn sjötugi auðjöfur Ratan Tata, sem stýrir Tata Group, segir að um merk tímamót sé að ræða í sögu samgangna. Þetta sé ekki ósvipað því þegar Wright-bræðurnir tóku flugið í fyrsta sinn og þegar maðurinn lenti á tunglinu í fyrsta sinn.

Bifreiðin var afhjúpuð á árlegri bílasýningu í Nýju-Delí, en þar var þemað kvikmyndin 2001: A Space Odyssey eftir Stanley Kubrick.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert