Næringarfræðingar vara foreldra við: Börn eiga að fá nóg af fitu og kaloríum

Fái ung börn eingöngu svokallað heilsufæði, þar sem uppistaðan er mikið magn ávaxta, grænmetis og heilkornabrauðs, getur það komið niður á vexti þeirra, að því er haft er eftir Kim Fleicher Michaelsen, prófessor í næringarfræði barna við Kaupmannahafnarháskóla, í danska blaðinu metroXpress.

Niðurstöður nýrrar breskrar könnunar, sem blaðið vitnar í, sýna að í aðeins 30 prósentum tilfella fengu börn upp að þriggja ára aldri nægar hitaeiningar úr matnum sem þau borðuðu á leikskólum sínum. Til þess að börn geti vaxið nægilega á fyrsta æviskeiðinu eiga þau að fá nóg af fitu og kaloríum, samkvæmt frásögn metroXpress.

Michaelsen kveðst hafa heyrt að sífellt fleiri foreldrar biðji starfsmenn leikskóla fyrir börn upp að þriggja ára aldri að gefa ekki börnunum hveiti- og mjólkurafurðir. „Sumir foreldrar eru með ranga mynd af því hvað er hollt. Þeir gleyma því að mataræðið á að vera fjölbreytt.“

Of mikið af ávöxtum, grænmeti og korni með miklum trefjum getur dregið úr hæfileika líkamans til að taka upp önnur næringarefni eins og til dæmis járn sem er nauðsynlegt fyrir vöxtinn og ónæmiskerfið. Auk þess fylla trefjarnar maga barnanna þannig að þeim finnst þau vera södd áður en þau hafa fengið það hitaeiningamagn sem líkami þeirra þarf yfir daginn, að því er segir í metroXpress.

Ingibjörg Gunnarsdóttir, dósent í næringarfræði við Háskóla Íslands og starfsmaður Rannsóknastofu í næringarfræði, segir Íslendinga í þeirri stöðu að auka þurfi ávaxta- og grænmetisneyslu allra aldurshópa.

„Það er hins vegar mikilvægt að fæðið sé fjölbreytt, einkum á vaxtarskeiðinu. Allar öfgar eru slæmar. Það er vel þekkt að börn þeirra sem eingöngu neyta jurtafæðis vaxa hægar og verða minni en önnur börn. Gæta þarf þess að orkuþörfinni sé fullnægt en samtímis þarf að gæta þess að börn fái ekki of mikið af mettaðri fitu. Þarna á milli er fín lína.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert