Aldrei fleiri frjókorn

mbl.is/Þorkell

Aldrei hafa mælst jafnmörg frjókorn í Reykjavík í júnímánuði og nú frá því mælingar hófust árið 1988. Þeir sem glíma við grasofnæmi ættu að forðast svæði sem sjaldan eru slegin.

Margrét Hallsdóttir, hjá Náttúrufræðistofnun Íslands sem heldur utan um mælingarnar, segir skilyrði fyrir frjódreifingu sjaldan hafa verið betri: þurrviðri, hlýindi, hæfilegur vindur flesta daga og aldrei þoka. „Auk þess var túnið við Bústaðaveginn, þar sem frjókornagildran er, ekki slegið fyrr en í gær [fyrradag] og mælireiturinn sjálfur var fyrst sleginn síðastliðinn föstudag. Þetta gerir það að verkum að margar grastegundir þar hafa náð að blómgast með tilheyrandi frjókornum.“

Hún segir að vegna þess hve tíðin er góð sé gróðurinn kominn lengra á veg núna en á sama tíma í fyrra. „Tölurnar núna gefa því vísbendingu um hvernig þetta er á svæðum þar sem sjaldan er slegið. Fólk með grasofnæmi á að forðast slíka staði því þar er frekar hætta á grasfrjóum en annars staðar.“

Þyrlast upp í roki

Birkifrjó mældust allt fram í síðustu viku jafnvel þótt birkifrjókornatímabilinu væri þá lokið. „Það hvessti svolítið í lok vikunnar og þá þyrlast oft upp gömul frjókorn,“ útskýrir Margrét. Hlutfall súrufrjóa er eðlilegt miðað við árstíma að hennar sögn en óvenju mikið var af „öðrum frjókornum“ í júní í ár.

Alls mældust 49 grasfrjó, 4 súrufrjó og engin birkifrjó í rúmmetra lofts í Reykjavík í fyrradag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert