Heyra greiðslukort brátt sögunni til?

Ný tækni gerir fólki kleift að greiða fyrir vörur og þjónustu með farsímum, lyklakippum, eigin fingraförum eða jafnvel augunum, og kunna því greiðslukort brátt að hverfa af sjónarsviðinu líkt og ávísanir, segir framkvæmdastjóri stærsta krítarkortafyrirtækis Bretlands, Barclaycard.

Flögur með rafrænum upplýsingum sem ekki krefjast snertingar bjóða upp á mikla möguleika sem enn hafa ekki verið nýttir, segir framkvæmdastjórinn, Antony Jenkins. Plastkortin sem flögurnar eru nú festar á dragi aftur á móti úr notkunarmöguleikum þeirra.

„Ef plastið er fjarlægt eru möguleikarnir óendanlegir. Viðskiptavinurinn getur greitt með því að nota hluti sem hann hefur með sér í öðrum tilgangi, hvort heldur er farsíma eða lyklakippu, eða jafnvel með manngreiningu,“ segir Jenkins, þ.e. fingraförum eða augnamynd.

Barclaycard ætlar að verja um einni milljón punda til að þróa nýjar greiðsluaðferðir, en í fyrra hóf fyrirtækið útgáfu á svonefndum OnePulse-kortum, en með þeim er hægt að greiða fyrir hluti sem kosta innan við tíu pund með því að bera kortin upp að skynjara.

Ekki þarf að taka kortið úr peningaveskinu til að skynjarinn nemi upplýsingar frá því. Kortið má einnig nota til að greiða fargjöld í strætóum og jarðlestum í London.

Barclaycard segir, að í árslok verði notendur OnePulse orðnir yfir ein milljón, og þúsundir fyrirtækja taki við þeim sem greiðslumáta.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert