Sjálfsdýrkendur þrífast á Facebook

Reuters

Ný rannsókn sem gerð var í Bandaríkjunum hefur m.a. leitt í ljós að samskiptavefurinn Facebook er frjór jarðvegur fyrir sjálfsdýrkendur, eða narsissta, og segja rannsakendur að slíkt fólk sanki að sér vinum á vefnum og birti þar fjölda fegrandi mynda af sjálfum sér.

Alls eru um 100 milljónir manna með skráða „prófíla“ á Facebook, sem ásamt öðrum samskiptavefum, t.d. MySpace, gegnir orðið lykilhlutverki í félagstengslum heillar kynslóðar.

Rannsóknin var gerð við Háskólann í Georgíu. Í ljós kom, að auðvelt var að bera kennsl á sjálfsdýrkendur meðal félaga á Facebook. Það voru þeir sem töldu flesta vinina og birtu opinskáustu myndirnar (oft kynferðislegar).

Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar nota sjálfsdýrkendur samskiptavefi til að auka sjálfstraust sitt og hækka stöðu sína. Þeir þrífast best þegar öðrum fellur vel við þá strax við fyrstu kynni, og markmið þeirra er að virðast hafa leiðtogahæfileika, vera spennandi og kynferðislega aðlaðandi. Sjálfsdýrkendur telja sig einstaka.

Laura Buffardi, aðalhöfundur rannsóknarinnar, segir atferli sjálfsdýrkenda á Facebook vera hið sama og í raunveruleikanum.

„Almennt eru þeir lítið gefnir fyrir að mynda hlý, langvarandi og náin tengsl. Þeim er meira í mun að virðast svalir, vinsælir og dómínerandi,“ sagði Buffardi.

Facebook gefi meiri möguleika en aðrar samskiptaleiðir á að viðhalda yfirborðskenndum tengslum vegna það sé svo einfalt að hafa fjölda vina í tengslanetinu.

Facebook geri notendum kleift að búa til persónugrímu, setja inn myndir og mynda yfirborðskennd tengsl í frasakenndum samtölum.

Niðurstöður rannsóknarinnar birtast í októberhefti vísindatímaritsins Personality and Social Psychology Bulletin. Þátttakendur í henni voru 129 háskólanemar á aldrinum 18-26 ára sem nota Facebook.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert