Andoxunarefni geri lítið gagn

Andoxunarefni koma ekki í veg fyrir hrukkurnar
Andoxunarefni koma ekki í veg fyrir hrukkurnar

Niðurstöður nýrrar rannsóknar sýna að matarkúrar og andlitskrem sem eiga að hafa áhrif á öldrun með hjálp andoxunarefna skili engum árangri. Vísindamenn við University College London notuðu orma við rannsóknina til að kanna hvort andoxunarefni hefðu áhrif á bandvef húðarinnar en ekkert gaf til kynna að þau virkuðu til að hægja á öldrun.

Andoxunarefni hafa verið auglýst sem yngingarefni í áratugi, byggt á kenningu sem kom fram árið 1956 um að öldrun stafaði af skaða á sameindum vegna sindurefna í hringrás líkamans, s.k. oxunarstreitu.

Samkvæmt þeirri kenningu eiga andoxunarefni að vinna gegn þessum sindurefnum og lágmarka skaða þeirra, en niðurstöður rannsóknarinnar nú gætu skýrt hvers vegna svo margar kannanir sem ætlað hefur verið að sanna þessa kenningu hafi gefið óljósar niðurstöður.

„Staðreyndin er sú að við höfum lítinn skilning á gangverki öldrunar, sindurefnakenningin hefur fyllt ákveðið þekkingartóm í yfir 50 ár, en hún virðist ekki standa undir sér,“ hefur BBC eftir Dr. David Gems, einum vísindamannanna.  Hann sagði jafnframt að hollt mataræði væri vissulega mikilvægt til að draga úr líkum á mörgum sjúkdómum sem fylgja háum aldri, s.s. krabbameini og sykursýki, en hinsvegar væru engar skýrar sannanir fyrir því að með því að neyta andoxunarefna væri hægt að hægja á öldrun. Jafnvel en minni sannanir styddu þá kenningu að pillur og krem með andoxunarefnum gerðu nokkurt gagn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert