Valda skjálftar eldgosum?

Svo virðist sem mjög stórir jarðskjálftar geti aukið eldvirkni í eldfjöllum, sem eru ekki mjög langt undan. Er það niðurstaða rannsókna á jarðskjálftum og eldvirkni í Suður-Chile.

Rannsóknin, sem unnin var af vísindamönnum við Oxford-háskóla, sýndi, að eldgos voru ferfalt algengari en venjulega á árinu eftir stóra skjálfta. Virtust þeir geta haft áhrif á eldfjöll, sem voru í allt að 500 km fjarlægð.

Charles Darwin velti fyrir sér árið 1835 hugsanlegum tengslum milli jarðskjálfta og eldgosa en nú virðist hafa verið sýnt fram á það, að í S-Chile hafi eldvirkni ávallt aukist í um það bil ár eftir stóra skjálfta, þ.e. 8 á Richter eða stærri.

„Þetta bendir til, að skjálftabylgjur, sem berast frá misgengi, geti ýtt undir eldgos með því að koma á hreyfingu eða valda ólgu í kvikunni undir eldfjöllum,“ sagði Sebastian Watt, einn vísindamannanna.

Nefnt er sem dæmi, að á eftir stóru skjálftunum í Chile 1906 og 1960 hafi fylgt eldvirkni í sex eða sjö eldfjöllum. Skjálftinn 1960 var 9,5, sá stærsti sem um getur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert