Segist eiga réttinn á ;-)

Margir nota broskalla þegar þeir senda smáskilaboð í gegnum farsímann.
Margir nota broskalla þegar þeir senda smáskilaboð í gegnum farsímann. mbl.is/Kristinn

Rússneskur kaupsýslumaður segir að búið sé að skrásetja svokölluð tilfinningatákn eða broskalla (e. emoticon) sem vörumerki. Oleg Teterin segir að rússneska einkaleyfastofan hafi veitt honum einkarétt á ;-).

Gagnrýnendur eru hins vegar á öðru máli, en þeir véfengja þann lagalega grundvöll sem þessi ákvörðun byggi á. Táknin séu ekki ný af nálinni og að þau hafi verið notuð árum saman.

Teterin segist ætla að sækja rétt sinn gagnvart þeim fyrirtækjum sem nota táknin án hans samþykkis.

 „Ég vil undirstrika að þetta beinist aðeins gegn fyrirtækjum sem eru að reyna að græða án samþykkis rétthafans,“ sagði Teterin í samtali við rússnesku sjónvarpsstöðina NTV.

Hann segir að það verði löglegt fyrir fyrirtækin að nota táknin þegar þau hafa keypt leyfi, sem gildir í eitt ár. 

„Þetta kostar ekki svo mikið , eða nokkra tugi þúsunda dala,“ segir kaupsýslumaðurinn, sem er forseti fyrirtækisins Superfone, sem selur farsímaauglýsingar.

Teterin tekur fram að hann ætli ekki að elta uppi einstaklinga sem noti táknin.

Þá segist hann einnig eiga önnur þekkt tákn á borð við :-) og ;) eða :) þar sem þau líkist mjög ;-), sem hann eigi nú réttinn á.

Sumir vilja hins vegar meina að yfirlýsing Teterin sé einhverskonar brella.

Forseti rússnesku samfélagssíðunnar odnoklassniki.ru, Nikita Sherman, er ein af þeim sem tekur ekki á mark á Teterin. „Það er afar ólíklegt að finnist nokkur í Rússlandi sem sé það þroskaheftur að hann muni greiða Superfone fyrir not á táknunum.“

Fram kemur í rússneskum fjölmiðlum að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem einhver í Rússlandi reyni að eignast réttinn á táknunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert