Segja mikla kaffidrykkju geta leitt til ofskynjana

Allt er best í hófi. Þar með talið kaffi.
Allt er best í hófi. Þar með talið kaffi. mbl.is/Sverrir

Fólk sem drekkur of mikið af kaffi getur farið að fá ofskynjanir, t.d. séð drauga eða heyrt undarlegar raddir. Þetta segja breskir vísindamenn.

Í rannsókn sem vísindamenn við Durham-háskóla unnu kemur fram að þeir sem drekka yfir sjö bolla af skyndikaffi á dag séu þrisvar sinnum líklegri að fá ofskynjanir en þeir sem drekka aðeins einn bolla. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.

Vísindamennirnir spurðu um 200 námsmenn út í koffeinneyslu þeirra. Þeir segja hins vegar að niðurstöður sínar sanni ekki að hér sé um orsakatengsl að ræða. Þetta kemur fram í vísindaritinu Personality and Individual Differences.

Þeir leggja áherslu á að reynsla fólks af ofskynjunum sé ekki merki um að viðkomandi eigi við geðræn vandamál að stríða. Einnig að um 3% af öllu fólki heyri reglulega raddir.

Simon Jones, sem fór fyrir rannsókninni og stundar doktorsnám í sálfræði, segir að rannsóknin sé fyrsta skrefið að því að skoða þá þætti sem tengjast ofskynjunum í víðara samhengi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert