Kurteisir Bretar sukku með Titanic

Titanic sökk í jómfrúarferð sinni árið 1912.
Titanic sökk í jómfrúarferð sinni árið 1912.

Fleiri Bretar heldur en Bandaríkjamenn drukknuðu þegar farþegaskipið Titanic sökk í jómfrúarferð sinni árið 1912. Vísindamenn telja að ástæðan sé sú að Bretarnir hafi verið kurteisari í allri framkomu, t.d. myndað röð fyrir framan björgunarbátana.

Hegðunarhagfræðingur, sem hefur rannsakað málið, segir að það hafi verið í eðli Bretanna að haga sér eins og „herramenn“ á meðan Bandaríkjamennirnir voru mun „einstaklingssinnaðari“.

David Savage, hjá Tækniháskólanum í Queenland, rannsakaði slysið og kannaði það hvernig fólk bregst við slíkum aðstæðum, þ.e. þegar um líf eða dauða er að ræða.

Hann sagði í samtali við breska ríkisútvarpið að konur með börn hafi verið 70% líklegri en karlar að komast lífs af við aðstæður sem þessar.

Savage kynnti sér vitnisburð þeirra sem komust lífs af, en tekin var skýrsla af þeim í Bandaríkjunum og Bretlandi skömmu eftir slysið. Titanic sökk eftir að hafa rekist á ísjaka. Alls fórust 1.500.

Margar konur hafi t.d. greint frá því að eiginmenn þeirra hafi komið þeim fyrir í björgunarbátum. Þegar þeir voru búnir að því söfnuðust þeir saman aftast á skipinu, kveiktu sér í vindlum og spjölluðu vinalega á meðan skipið var á sökkva, segir hann.

Hann segir að einn herramaðurinn, sem hafi verið sterkefnaður, hafi farið niður í káetu, eftir að hann hafði komið eiginkonunni fyrir í björgunarbát, og klætt sig í kjólföt. Hann hafi farið „aftur upp til að reykja [...] hugmyndin var eflaust sú að ef ég er að fara deyja þá skal ég deyja eins og velklæddur herramaður,“ segir Savage.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert