Forsvarsmenn Pirate Bay fundnir sekir

Fredrik Neij, Gottfrid Svartholm og Peter Sunde í héraðsdómi Stokkhólms.
Fredrik Neij, Gottfrid Svartholm og Peter Sunde í héraðsdómi Stokkhólms. Reuters

Forsvarsmenn sænska netfyrirtækisins The Pirate Bay voru í dag fundnir sekir um brot gegn höfundarréttarlögum með því að að bjóða netverjum upp á hugbúnað sem gerir kleift að skiptast á höfundarréttarvörðu efni á netinu.  Dómnum verður áfrýjað til hæstaréttar Svíþjóðar.

Fjórmenningarnir, þeir Fredrik Neij, Peter Sunde, Gottfrid Svartholm Warg og Carl Lundström, voru allir dæmdir í árs fangelsi þegar dómur var kveðinn upp í héraðsdómi í Stokkhólmi. Að auki voru þeir dæmdir til að greiða alþjóðlegum kvikmynda- og tónlistarframleiðslufyrirtækjum, þar á meðal 20th Century Fox, MGM og Columbia, 30 milljónir sænskra króna í bætur, jafnvirði 460 milljóna íslenskra króna. 

The Pirate Bay er ein stærsta skráarskiptinetsíða heims með um 25 milljónir notenda. Félagið hýsir ekki efnið sjálft heldur skráir hjá sér efnisskrár í vörslu notenda gegnum svonefnda jafningavinnslu (e. peer-to-peer) skráarskiptatólsins BitTorrent. Notendur leita á vefnum að þeim skrám sem þeir hafa hug á og hala þeim síðan niður af tölvum annarra notenda.

Vefurinn sem er með bækistöðvar í Svíþjóð hefur verið mikill þyrnir í augum stóru fjölmiðlafyrirtækjanna allt frá því að honum var hleypt af stokkunum 2003 og hefur þegar staðið af sér eina atlögu fyrir dómstólum. Forráðamenn hans hafa verið harðir gagnrýnendur þess fyrirkomulags sem ríkir í iðnaðinum og segja það úrelt.

Hefur engin áhrif á síðuna

„Málið snýst ekki um að verja tæknina,“ sagði einn þeirra á blaðamannafundi fyrir réttarhöldin. „Þetta snýst meira um að verja hugmyndina á bak við tæknina og það er kannski mergurinn málsins - hin pólitíska hlið málsins að tæknin fái að vera frjáls en sé ekki stjórnað af öflum sem líkar ekki tæknin.“

Á vefnum, þ.e. thepiratebay.org, segir að ekki sé um lokaniðurstöðu að ræða. Dómnum verði áfrýjað. Einnig kemur þar fram að dómurinn hafi engin áhrif á rekstur The Pirate Bay.

Forsvarsmenn síðunnar hyggjast halda blaðamannafund á netinu kl. 11 í dag. Hægt er komast á fundinn í gegnum vefinn.

Merki Pirate Bay.
Merki Pirate Bay.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert