Svínaflensan af mannavöldum?

Unnið að rannsókn á svínaflensuveiru.
Unnið að rannsókn á svínaflensuveiru. Reuters

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, WHO, er nú að rannsaka fullyrðingar ástralsks vísindamanns um að svínaflensuveiran, sem nú hefur breiðst út víða um heim, kunni að hafa orðið til vegna mannlegra mistaka þegar verið var að þróa bóluefni gegn inflúensuveiru.

Adrian Gibbs tók þátt í rannsóknum sem leiddu til framleiðslu lyfjafyrirtækisins Roche á flensulyfinu Tamiflu. Fréttaveitan Bloomberg hefur eftir Gibbs, að hann ætli að birta skýrslu þar sem komist er að þeirri niðurstöðu, að veiran H1N1 hafi orðið til fyrir mistök í eggjum, sem vísindamenn notuðu til að rækta veirur og lyfjaframleiðendur notuðu til að framleiða bóluefni.

Gibbs segist hafa komist að þessari niðurstöðu með því að rekja uppruna veirunnar og rannsaka erfðafræðilega uppbyggingu hennar.

„Ein af einföldustu skýringunum er að veiran hafi sloppið úr rannsóknarstofu," sagði Gibbs við sjónvarp Bloomberg. „En það eru margar aðrar hugsanlegar skýringar."  

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin fékk skýrslu Gibbs um helgina og er að fara yfir hana. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert