Telja ónæmiskerfi kvenna sterkara en karla

Konur eru svo sannarlega ekki veikara kynið.
Konur eru svo sannarlega ekki veikara kynið. Reuters

Niðurstöður nýrrar rannsóknar benda til þess að ónæmiskerfi kvenna sé sterkara heldur en karlmanna. Nú hafa karlmenn afsökun, og geta vísað í vísindalegar niðurstöður máli sínu til stuðnings, þegar þeir kvarta undan óþægindum og slappleika vegna kvefs og hósta.

Fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins að rannsóknin bendi til þess að kvenhormónið estrógen styrki ónæmiskerfi kvenna í baráttunni við sýkingar.

Svo virðist sem að estrógen berjist gegn ensímum sem hindra bólgumyndun, en hún ver líkamann gegn sýkingum.

Rannsóknin, sem vísindamenn við McGill háskólann í Kanada gerðu, hefur verið birt í Proceedings of the National Academy of Sciences.

Á vef BBC kemur fram að vísindamennirnir hafi einblínt á ensím sem kallast Caspase-12. Vitað er að það dregur úr bólgumyndun, sem er fyrsta vörn líkamans gegn bakteríu- og veirusýkingum. 

Vísindamennirnir rannsökuðu mýs sem voru ekki með Caspase-12 genið. Þær áttu því auðvelt með að verjast sýkingum.

Genið var síðan sprautað í mýsnar, þ.e. bæði kyn. Niðurstaðan var sú að aðeins karldýrin áttu í meiri hættu á að fá sýkingar. 

Vísindamennirnir drógu því þá ályktun að estrógenið í kvendýrunum hafi komið í veg fyrir að Caspase-12 genið hefði nokkur áhrif.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert