Murdoch boðar dauða dagblaða

Rupert Murdoch ásamt eiginkonu sinni Wendi Deng.
Rupert Murdoch ásamt eiginkonu sinni Wendi Deng. Reuters

Rupert Murdoch, aðaleigandi News Corp. fjölmiðlasamsteypunnar, greindi frá því í gær að innan tíðar þyrftu þeir sem lesa fréttir bandaríska viðskiptablaðsins Wall Street Journal í farsímum eins og Blackberry og iPhone að greiða fyrir áskrift á blaðinu. Jafnframt sagði Murdoch að hann teldi að prentuð dagblöð yrðu útdauð eftir 20-30 ár og rafrænir fjölmiðlar hefðu tekið völdin.

Murdoch lét þessi orð falla á ráðstefnu Goldman Sachs, Communacopia XVIII, í  New York í gær.

Að sögn Murdoch verður farið að innheimta áskriftargjald fyrir WSJ í gegnum Blackberry og iPhone eftir einn eða tvo mánuði og verður lesendum gert að greiða tvo dali á viku fyrir áskriftina. Þeir sem eru áskrifendur að blaðinu fyrir greiða 1 dal á viku fyrir símaaðgang.
Um ein milljón manna eru áskrifendur að WSJ á netinu í dag en fréttavefurinn er einn fárra sem greiða þarf fyrir lestur á.

Líkt og fram hefur komið telur Murdoch nauðsynlegt að hefja gjaldtöku fyrir notkun á frétta- og afþreyingarmiðlum á netinu. Í gær sagði hann frá því að News Corp. leitaði nú leiða til þess að láta notendur myndbandavefjarins Hulu.com greiða fyrir notkun. Hulu.com er keppinautur YouTube og á News vefinn ásamt Walt Disney Co. og NBC Universal. Þar er hægt að horfa á sjónvarpsþætti og kvikmyndir í heild og telur Murdoch eðlilegt að láta greiða fyrir hvert niðurhal en engin ákvörðun þar að lútandi liggi fyrir.

Meðal miðla í eigu News Corp eru MySpace, Fox sjónvarpsstöðin, 20th Century Fox kvikmyndafyrirtækið, STAR og SKY sjónvarpsstöðvarnar auk fjölda dagblaða.

Murdoch segir að fjöldi fólks lesi blöð í dag rafrænt og framtíðin sé þar en viðurkennir að hann persónulega sé ekkert sérstaklega hrifinn af því að lesa blöð með þeim hætti.

Öll tæknifyrirtæki, allt frá Fuji til Hewlett-Packard, Sony og hvert sem er, er að vinna að því hanna fartölvur sínar á þann hátt að auðvelt sé að lesa dagblöð rafrænt, segir Murdoch. Hann telur að enn sé þó töluvert langt í land, að minnsta kosti tuttugu ár. Kannski þrjátíu áður en prentuð dagblöð hafa runnið sitt skeið á enda.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert