Norðurljósadýrðar að vænta

Norðurljós í Fljótshlíð. Mynd úr myndasafni.
Norðurljós í Fljótshlíð. Mynd úr myndasafni. hag / Haraldur Guðjónsson

Í fyrradag varð stærsta sólgos sem orðið hefur í fjögur ár. Í kjölfar gossins gætu raforkukerfi, samskiptakerfi og gervihnettir truflast, þar á meðal þeir sem senda GPS-merki til jarðarinnar, vegna rafagna sem leysast úr læðingi við gosið. Mikil norðurljósdýrð fylgir gjarnan sólgosum.

Þorsteinn Sæmundsson stjörnufræðingur fylgist grannt með sólgosum. Hann segir að erfitt sé að segja til um hvort eða hvernig sólgosið gæti valdið truflunum.

„Það er ómögulegt að segja til um hvert rafagnirnar fara og á hvaða hraða þær eru,“ sagði Þorsteinn í samtali við mbl.is. „Ef þær koma til jarðar þá gætu þær valdið truflunum. En það ætti ekki að liggja fyrir fyrr en á morgun.“

Hann segir að sólgos hafi litlum truflunum valdið hér á landi, en víða erlendis hafi margt farið úr skorðum vegna þeirra og rafmagn farið af stórum svæðum.

Gleðilegur fylgifiskur sólgosanna er mikil norðurljósadýrð, en þá birtast norðurljós á ýmsum stöðum,  þar sem þau sjást ekki að öllu jöfnu. „Það má reikna með að norðurljós sjáist suður við miðbaug,“ sagði Þorsteinn.

Hann sagði að erfitt væri að tímasetja nákvæmlega komu norðurljósanna, en þeirra mætti hugsanlega vænta annað kvöld. „Það er svolítið erfitt að spá fyrir um þetta, en oft gerist þetta um þremur dögum eftir gos. En það getur verið styttri tími, ef um mjög öflug gos er að ræða.“

Á Stjörnufræðivefnum segir að sólgos séu snögg orkulosun í lofthjúpi sólar sem valdi gríðarlegri birtuaukningu á sólinni og straumi hlaðinna agna út í geiminn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert