Ísaldarbarn varpar ljósi á uppruna Ameríkubúa

Moskusuxar í Alaska þar sem hugsanlega verður borað eftir olíu.
Moskusuxar í Alaska þar sem hugsanlega verður borað eftir olíu. AP

Á landsvæðinu sem nú er Alaska var einn fyrsti Ameríkubúinn, þá aðeins þriggja ára gamall, lagður til hinstu hvílu inni á forsögulegu heimili fyrir 11.500 árum síðan. Líkamsleifar barnsins, sem fundust í nýlegum fornleifauppgreftri, eru þær elstu sem vitað er til að hafi fundist í Norður-Ameríku og gefa að sögn National Geographic einstaka innsýn í daglegt líf ísaldarfólks í heimsálfunni.

Ef unnt verður að greina DNA í líkamsleifunum er hugsanlegt að Ísaldarbarnið verði lykillinn að því að greina hverjir bjuggu Norður-Ameríkumegin við eiðið sem talið er að hafi þá enn tengt Ameríkurnar við Asíu. Eitt er víst og það er að búið var af umhyggju um lík barnsins, en það mun hafa verið lagt haganlega til hvílu og eldur kveiktur ofan á því. Að líkbrennslunni lokinni virðist jarðvegi hafa verið mokað ofan á líkið til að hylja það og að því loknu hafi hinir í ættbálknum yfirgefið dvalarstaðinn.

Ísaldarmennirnir virðast hafa komið sér fyrir með því að grafa sig um 27 sentímetra niður og strengja þak yfir með styrktarsúlum. Leifar af laxi, íkornum og öðrum dýrum fundust einni á staðnum og þykja benda til að ættbálkurinn hafi hafst þar við í vikur eða mánuði.  Með öðrum orðum er um að ræða leifar forsögulegs heimilis, þess elsta sinnar tegundar í Alaska.

Frumrannsóknir sem gerðar hafa verið á tönnum Ísaldarbarnsins benda til að það sé líffræðilega skylt bæði frumbyggjum Norður-Ameríku sem og íbúum Norðaustur-Asíu. Fornleifafræðingarnir vinna m.a. náið með frumbyggjahópum í Alaska og hafa margir þeirra lýst yfir áhuga á að bera saman eigið erfðaefni við erfðaefni barnsins til að varpa ljósi á uppruna þess og jafnvel sinn eigin um leið.

Almennt er talið að fyrstu Ameríkumennirnir hafi komið frá Síberíu til Alaska um löngu horfna landtengindu yfir Beringsund fyrir um 13.000 árum síðan

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert