Indverjar skutu geimflaug á loft

Geimskotið gekk vel.
Geimskotið gekk vel. Reuters

Indverjar skutu í dag geimflaug á loft sem flutti þrjá gervihnetti á loft. Talsmaður stjórnvalda segir að geimskotið hafi gengið vel í alla staði.

Síðasta geimsskot Indverja endaði með ósköpum, en í desember sprakk geimflaug skömmu eftir að henni var skotið á loft og hrapaði hún í Bengal-flóa. Starfsmenn Geimferðastofnunar Indlands sáu því ástæðu til að fagna í dag þegar ljóst að allt hafði gengið samkvæmt áætlun.

Geimflaugin flutti þrjá gervihnetti á loft. Í fyrsta lagi Resourcesat-2 sem ætlað er að rannsaka áhrif mannsins á auðlindir jarðar. Í öðru lagi er gervihnöttur sem Indverjar og Rússar senda sameiginlega á loft, en honum er ætlað að rannsaka stjörnur og lofthjúp og þriðja lagi er gervihnöttur sem var byggður af háskólanum í Singapore.

Indverjar ætla sér að senda mannað geimfar út í geim árið 2016.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert