Fjarlægt dulstirni fundið

Mynd úr safni af vetrarbraut á himni.
Mynd úr safni af vetrarbraut á himni. Reuters

Hópur evrópskra stjörnufræðinga hefur með hjálp öflugra sjónauka fundið og rannsakað fjarlægasta dulstirni sem fundist hefur hingað til. Þetta fyrirbæri er knúið áfram af tveggja milljarða sólmassa svartholi og er langbjartasta fyrirbæri sem fundist hefur í hinum unga alheimi til þessa.

Frá þessu er greint á Stjörnuskoðunarvefnum og vitnað þar til rannsókna sem birtar verða í nýjasta hefti tímaritsins Nature og kemur út á morgun, 30. júní.

Dulstirni eru mjög bjartar og fjarlægar vetrarbrautir, knúin áfram af risasvartholum í miðju þeirra, segir á vefnum. Þau skína mjög skært svo hægt er að nota þau til að rannsaka það tímabil þegar fyrstu stjörnurnar og vetrarbrautirnar voru að myndast. Þetta nýuppgötvaða dulstirni er sagt svo fjarlægt að ljós þess berst frá lokum hins svokallaða endurjónunarskeiðs í sögu alheims.

 „Dulstirnið er gott tækifæri fyrir okkur til að rannsaka hinn unga alheim. Þetta er mjög sjaldgæft fyrirbæri sem hjálpar okkur að skilja hvernig risasvarthol uxu aðeins nokkur hundruð milljónum ára eftir Miklahvell," er haft eftir Stephen Warren, sem gegndi forystuhlutverki í rannsókninni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert