Þurfa að fækka kaloríum um 5 milljarða

Bresk heilbrigðisyfirvöld segja, að langflestir Bretar borði nú meira en þeir í raun þurfi á að halda. Nauðsynlegt sé að fækka kaloríum, sem þjóðin innbyrðir daglega, um 5 milljarða. 

Í skýrslu, sem birt var í dag, er fullyrt að meðal Breti borði um 10% meira á hverjum degi en hann í raun þarf og þar sé að leita helstu skýringanna á vaxandi offituvandamáli þjóðarinnar. Um 60% Breta eru of þung og þriðjungur barna á aldrinum 10-11 ára er of feitur. 

Sérfræðingar segja, að kostnaður bresku heilbrigðisþjónustunnar vegna sjúkdóma, sem tengja má við offitu, nemi um 5,1 milljarði punda á ári. Einkum er um að ræða sjúkdóma á borð við sykursýki, hjartasjúkdóma og krabbamein.  

Andrew Lansley, heilbrigðisráðherra, segir að bresk stjórnvöld muni áfram vinna að því með matvæla- og drykkjarvöruframleiðendum að draga úr magni salts og fitu í framleiðsluvörum þeirra og birta kaloríuinnihald á umbúðum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert