Breytir brúnum augum í blá

Þróuð hefur verið aðferð til að gera brún augu blá.
Þróuð hefur verið aðferð til að gera brún augu blá.

Bandaríski líffræðingurinn Gregg Homer segist hafa þróað aðferð til að breyta brúnum augum í blá. Með 20 sekúndna leisermeðferð sé hægt að fjarlægja brúna litinn í augunum þannig að þau verði smám saman blá.

Hann leitar nú að fjárfestum til að fjármagna rannsóknir á aðferðinni. Augnlæknar eru hinsvegar ekki jafnhrifnir af þessari uppfinningu Homers og segja að hún geti valdið sjóntruflunum. Áætlað er að það muni taka a.m.k. hálft annað ár að ljúka öllum öryggisprófunum.

Í aðferðinni felst að tölvustýrður skanni tekur mynd af lithimnunni og reiknar út hvaða svæði skal geisla. Að því loknu er geislanum beint á svæðin, hvert á eftir öðru, og fer geislinn nokkrar umferðir. Meðferðin tekur ekki nema um 20 sekúndur.

„Leiserinn hreyfir við litnum á yfirborði lithimnunnar,“ sagði Homer í viðtali við BBC. „Við notum tvær tíðnir sem dökka litarefnið í auganu dregur í sig, og það dregur það allt í sig þannig að það er engin hætta á skemmdum í öðrum hlutum augans. Það hitar upp litarnefnið og breytir uppbyggingu litarfrumnanna. Líkaminn skynjar að þarna sé ónýtur vefur og myndar ákveðið prótein. Þá fara aðrar eindir af stað sem eru eins og litlir pac-man og gleypa ónýta vefinn.“

Viku eftir meðferðina, meðan breytingin er að eiga sér stað, er augnliturinn dekkri en áður en einni til þremur vikum eftir það byrjar blái liturinn að sjást. Þar sem litarefnið melanín myndast ekki að nýju er ekki hægt að fá brúna litinn aftur.

Augnlæknar hafa lýst yfir áhyggjum sínum af þessari aðferð. „Litarefnið er ekki þarna að ástæðulausu. Ef það er tekið burt er m.a. hætta á fólk sjái tvöfalt,“ segir Larry Benjamin, augnskurðlæknir í Bretlandi. Erfiðara væri fyrir augað að stjórna birtunni sem það hleypti inn. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert