Engin ummerki um geimverur

E.T. hefur ekki komið til jarðar að sögn ríkisstjórnar Baracks …
E.T. hefur ekki komið til jarðar að sögn ríkisstjórnar Baracks Obamas.

Engar vísbendingar eru um að geimverur hafi nokkru sinni reynt að hafa samband við mannkynið og engar trúverðugar heimildir benda til þess að lífi utan úr geimnum sé haldið leyndu fyrir almenningi. Þetta segir Phil Larson, yfirmaður geimvísindamála í ríkisstjórn Baracks Obamas og upplýsingafulltrúi.

Var Larson að svara nokkrum spurningum samsæriskenningasmiða sem settar höfðu verið fram á vefsíðu Hvíta hússins.

„Bandaríska ríkisstjórnin hefur engar vísbendingar um að líf þrífist utan plánetu okkar eða að geimverur hafi haft samband eða talað við nokkra manneskju. Þar að auki eru engar trúverðugar upplýsingar sem benda til þess að verið sé að fela sönnunargögn fyrir almenningi,“ skrifaði Larson á síðuna.

Sagði Larson hins vegar að möguleikinn á því að geimverur séu til sé ræddur og kannaður, þar á meðal í nokkrum verkefnum bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA. Það væri því alls ekki útilokað að geimverur séu til.

„Margir vísindamenn og stærðfræðingar hafa komist að þeirri niðurstöðu að líkurnar séu ansi háar á því að einhvers staðar við þær billjónir ofan á billjónir af stjörnum í alheiminum sé pláneta önnur en okkar sem hýsir líf. Margir hafa hins vegar einnig bent á að líkurnar á að við höfum samskipti við nokkra þeirra [geimverurnar], sérstaklega þær gáfuðu, eru gífurlega litlar vegna fjarlægðanna sem um er að ræða,“ skrifar Larson.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert