Trefjar og heilkorn gegn krabba

reuters

Fólk sem eykur trefja- og heilkornsneyslu sína um 10 grömm á dag, getur dregið úr líkum á að það fái ristilkrabbamein um 10%. Þetta er niðurstaða vísindamanna við Imperial College London sem er birt í British Medical Journal. Greining á 25 rannsóknum sýndi að trefjar úr ávöxtum og grænmeti drógu ekki úr áhættunni. BBC greinir frá þessu.

Rannsóknin á gildi trefja og heilkorns var gerð að beiðni góðgerðasamtaka sem vinna að krabbameinstengdum málum. Gildi trefja og heilkorns er þegar þekkt í baráttu við hjartasjúkdóma en ekki hafa áður fengist afgerandi niðurstöður um tengsl við ristilkrabba.

Með heilkorni er átt við mat eins og heilkornabrauð, brún hrísgrjón, hafra og hafragraut.

Dagfinn Aune, forsvarsmaður rannsóknarinnar, segir að því meira sem borðað sé að trefjum því betra.

Rannsóknin sýndi að með því að bæta þremur skömmtum af heilkorni, þ.e. 90 grömmum á dag, við fæðu væri hægt að draga úr líkum á ristilkrabba um 20%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert