Lífsstílsþættir orsök 40% krabbameina

Reykingar geta valdið krabbameini.
Reykingar geta valdið krabbameini. Golli

Nær helming allra krabbameintilfella sem greinast ár hvert í Bretlandi, yfir 130 þúsund, má rekja lífsstílsþátta á borð við reykingar, áfengisdrykkju og slæmt mataræði.

Þetta eru niðurstöður nýrrar rannsóknar sem birtar eru í British Journal of Cancer. Þar segir að stærsti orsakavaldurinn sé tóbak, í 23% tilfellum karla og 15,6% tilfellum kvenna. Í öðru sæti hjá karlmönnum sé skortur á ferskum ávöxtum og grænmeti í mataræði en fyrir konur er offita næststærsti orsakavaldurinn.

Max Parkin, einn aðalhöfundur rannsóknarinnar, segir: „Margir halda að það sé undir örlögunum komið hvort þeir fái krabbamein eða það fari eftir genunum og það sé happa glappa hvort þeir fái það. Þegar við skoðum niðurstöður rannsóknarinnar er ljóst að 40% allra krabbameina má rekja til þátta sem við höfum í valdi okkar að breyta.“

Fyrir karlmenn er besta ráðið að hætta að reykja, borða meiri ávexti og grænmeti og minnka áfengisdrykkju. Konur ættu að hætta að reykja og gæta þess að verða ekki of þungar.

Parkin segir að hann hafi ekki búist við að neysla ávaxta og grænmetis gæti skipt jafnmiklu máli og hún gerir í raun, þegar kemur að því að vernda menn gegn krabbameini. Þá segist hann ekki hafa búist við að offita væri stærri áhættuþáttur en áfengi í tilfelli kvenna.

Í heildina eru fjórtán lífsstíls- og umhverfisþættir sem orsaka 134 þúsund krabbameinstilfelli ár hvert í Bretlandi. Rúman þriðjung, eða 34%, má rekja til reykinga, mataræðis, áfengisneyslu og offitu.

Nánar má lesa um rannsóknina hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert